Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra, skýrði frá þessu á laugardaginn. Hann kynnti þá í fyrsta sinn nýjar ráðleggingar yfirvalda á þessu sviði.
„Við eigum að eiga vatn og mat sem dugir í þrjá daga. Við þurfum að eiga nauðsynleg lyf og skyndihjálparbúnað. Tryggja að við getum haldið hita á húsum okkar þegar kalt er og tryggja að við komumst af án rafmagns,“ sagði Poulsen.
Helsta ástæðan fyrir þessum ráðleggingum er auðvitað sú ógn sem stafar frá herskáu Rússlandi undir forystu Vladímír Pútín.
Ráðleggingarnar byggja á hættumati frá yfirvöldum og leyniþjónustustofnunum.
Ekki er talin hætt á að hefðbundinni hernaðarárás á Danmörku en ekki er talið útilokað að landið verði fyrir blendingsárás sem gæti til dæmis lamað raforkukerfið.
Poulsen sagði mikilvægt að hafa í huga að væntanlega þurfi fólk ekki að grípa til þessara neyðarbirgða en það sé samt sem áður mikilvægt að vera undir það búinn að til neyðarástands komi.
Upplýsingaherferð verður nú hrundið af stað til að segja landsmönnum hvernig þeir eiga að búa sig undir hugsanlegt neyðarástand. Mikilvægt er að almenningur sé undir það búinn, því það mun auðvelda starf yfirvalda ef til neyðarástands kemur.
Dönsku almannavarnirnar hafa birt uppfærðan gátlista fyri það sem fólk á að eiga heima hjá sér til að geta bjargað sér sjálft.