Það var á föstudegi í aprílmánuði árið 2009 sem 25 ára gömul kona, Heather Strube, hitti barnsföður sinn og fyrrverandi eiginmann, á bílastæði fyrir utan Target-verslun í smábænum Snellville í Georgia-fylki. Barnsfaðirinn, Steven Strube, var þar að afhenda Heather tveggja ára gamlan son þeirra sem hafði verið hjá honum undanfarna daga.
Þetta var samkvæmt samkomulagi en spenna var á milli fólksins því Heather hafði sótt um fullt forræði yfir drengnum og Steven var ósáttur við það. En hann skilaði drengnum, kvaddi barnsmóður sína og ók í burtu.
Augnabliki síðar birtist á bílastæðinu lágvaxinn og grannur karlmaður. Á meðan Heather var að koma syni sínum fyrir í barnabílstólnum gekk ókunni maðurinn að mæðginunum og skaut Heather í höfuðið. Barnið sakaði ekki í árásinni en talið er að Heather hafi látist samstundis.
Atburðinn var fljótt tilkynntur til lögreglu sem hóf rannsókn þegar í stað. Myndefni úr öryggismyndavélum var til reiðu en lögreglumennirnir höfðu enga hugmynd um hver litli, skrýtni morðinginn í myndskeiðinu var.
Grunur beindist strax að Steven Strube en hann gat fært sönnur á að hann hefði ekki verið á staðnum þegar morðið var framið. Lögreglan vann engu að síður út frá þeirri tilgátu að hann hefði ráðið leigumorðingja til verksins.
Annað átti eftir að koma á daginn.
Lögregla ákvað að sýna Steven myndskeið af morðinu úr eftirlitsmyndavél. Viðbrögð hans komu þeim í opna skjöldu. Hann varð skelfingu lostinn og ákallaði æðri máttarvöld. Hann sagði lögreglumönnunum að árásarmaðurinn væri móðir hans í dulargervi karlmanns. Það væri ekki um að villast því hún væri með sérstakt göngulag.
Lögreglumennirnir báðu Steven um að hringja í móður sína, Joanna Hayes, og bera þetta upp á hana. Joanna sagði við son sinn að honum skjátlaðist, hún hefði ekki myrt Heather.
Lögreglan kallað Joönnu til yfirheyrslu og þverneitaði hún að hafa framið glæpinn. Hún framvísaði kvittun frá veitingastaðnum Wendys sem átti að sýna að hún hefði verið fjarstödd þegar ódæðið var framið. Lýsti hún ferðum sínum frá heimili sínu í öfuga átt við Snellville, með viðkomu á veitingastaðnum.
En lögreglumönnum fannst frásögnin vera of nákvæm og ferðirnar eins og fyrirfram skipulagðar. Auk þess sýndi tímasetningin á kvittuninni frá Wendys að Joanna hafði nægan tíma til að aka þaðan til Snellville og fremja morðið á bílastæðinu fyrir utan Target.
Vitni sem bar kennsl á bíl Joönnu í nágrenni við morðvettvanginn á þeim tíma þegar morðið var framið var mikilvægt sönnunargagn og leiddi til þess að hún var ákærð. Um var að ræða hvítan sendibíl. En bein sönnunargögn voru ekki mikil. Líklega var það þó vitnisburður sonarins, sem bar kennsl á móður sína í dulargerfi á myndskeiðinu úr eftirlitsmyndavélinni, það sem réð úrslitum.
Árið 2011 var Joanna Hayes fundin sek um að hafa myrt fyrrverandi tengdadóttur sína og dæmd í ævilangt fangelsi. Hún hefur ávallt neitað sök.
Vitni sem ræddu við lögregluna sögðu að afstaða Joönnu í forræðisdeildunni við Heather hafi verið miklu hatrammari en sonar hennar, Steven. Joanna gat ekki þolað að hún fengi ekki að ráða öllu um uppeldi sonarsonar síns og hún vildi ryðja Heather úr vegi. Hún taldi sig hafa framið hinn fullkomna glæp en þar skjátlaðist henni illilega.