fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Fréttir

Mágur Valdimars fær ekki vegabréf þrátt fyrir að eiga íslenska móður, eiginkonu og tvíburabróður – Hefur búið 51 af 70 árum sínum á Íslandi

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 15. júní 2024 12:02

Valdimar (til vinstri) segir tregðu Útlendingastofnunar gagnvart Róberti mági sínum galna.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hálf íslenskur maður, sjötugur að aldri sem hefur búið og starfað á Íslandi í 51 ár með hléum fær ekki íslenskan ríkisborgararétt. Hann hefur búið samfleytt á Íslandi síðan 1995.

Maðurinn heitir Róbert Scobie og mágur hans Valdimar Óskarsson lýsir baráttu hans við kerfið og vindmyllurnar í Útlendingastofnun í færslu á samfélagsmiðlum.

„Róbert mágur minn sem varð sjötugur í síðustu viku hefur átt í tómu veseni með útlendingastofnun,“ segir Valdimar, sem er framkvæmdastjóri hjá DB Schenker á Íslandi. Rekur hann sögu Róberts í baráttunni við að fá íslenskan ríkisborgararétt.

Stærstan hluta ævinnar á Íslandi

Róbert er tvíburi, fæddur á Íslandi árið 1954. Hann átti íslenska móður og bandarískan föður. Af sínum 70 árum hefur hann búið í 51 ár á Íslandi. Það er frá 1954 til 1961, frá 1962 til 1976, frá 1989 til 1990 og frá 1995 til dagsins í dag. Gekk hann í grunnskóla á Íslandi og lærði til matreiðslumeistara.

„Eftir nám reyndi Róbert fyrir sér við ágætan orðstír sem veitingamaður í Bandaríkjunum þar til hann elti æskuástina heim til Íslands fyrir rúmum 30 árum,“ segir Valdimar. „Róbert giftist sinni íslensku konu fyrir 30 árum og eiga þau saman bæði börn og barnabörn.“

Síðan 1995 hefur Róbert starfað sem veitingamaður á ýmsum stöðum en lengst á sjó, það er í millilandaflutningum og hjá sjávarútvegsfyrirtækjum. Hann er nú ellilífeyrisþegi.

„Róbert hefur alltaf haft Bandarískt vegabréf en vildi nú bæta úr því og fá einnig það íslenska rétt eins og eineggja tvíbura bróðir hans og hin systkinin eru með en þau eru 8 talsins, svo ekki sé nú talað um eiginkonu og börn,“ segir Valdimar. Hann spyr hvort mál Róberts falli ekki undir fjölskyldusameiningu, sem mikil umræða er nú um.

Öllu skilað

En þetta hefur ekki gengið sem skildi. Strax á fyrsta fundi komu hindranirnar í ljós.

„Á fyrsta fundi með útlendingastofnun óskaði starfsmaður sem gerði sig ágætlega skiljanlega á íslensku að hann tæki próf í tungumálinu. Róbert spurði þá einfaldlega starfsmanninn hvort grunnskólaprófið hans væri ekki í gildi og með því var fyrstu af fjölmörgum hindrunum rutt úr vegi,“ segir Valdimar.

Eftir þetta hefur Róberti ítrekað verið hafnað og ítrekað verið beðinn um meiri gögn, gögn sem hann hefur þegar skilað til stofnunarinnar.

Búsetuskráningar Róberts samkvæmt Hagstofu.

Bendir Valdimar á að Róbert hafi verið skattgreiðandi á Íslandi í þrjátíu ár og skilað öllum umbeðnum fjárhagslegum upplýsingum frá þeim tíma sem Ísland tók upp rafræn skil og samskipti. Einnig allar upplýsingar um eignir þeirra hjóna, svo sem um fasteignina þeirra. Þá hefur hann einnig skilað inn hreinu íslensku sakavottorði, vitnisburði vina og fjölskyldu og ýmsu öðru til að sýna fram á tilverurétt sinn sem Íslendings.

Ellilífeyririnn á ekki að duga

„Á dögunum barst Róberti bréf sem virðist loka svar útlendingastofnunar á umsókn um íslenskt vegabréf,“ segir Valdimar. „Svarið var HÖFNUN.“

Uppgefnar ástæður Útlendingastofnunar eru í meginatriðum tvær. Það er að Róberti hafi ekki tekist að fá sakavottorð frá alríkislögreglunni FBI í Bandaríkjunum. Einnig að hann geti ekki sýnt fram á nægar tekjur til að halda heimili á Íslandi.

Fyrir utan hversu flókið það er að fá útgefið hreint sakavottorð frá FBI þá bendir Valdimar á að þessi höfnun segi sitt um íslenskan ellilífeyri, það er fyrst maður sem býr í eigin húsnæði eigi ekki að geta lifað á þeim samkvæmt íslenskri stofnun.

„Ef Íslendingur þarf að ganga í gegn um allt þetta vesen og endalausar hafnanir til að fá vegabréfið sitt hvernig fara þá allir þessir þúsundir nýbúa í gegn um kerfið,“ spyr Valdimar. „Vissulega getur Róbert þakkað guði fyrir að hann sé ekki í hópi þeirra fjölda umsækjandi sem eru að flýja stríðsátök (allt með kyrrum kjörum í Grafarvoginum) og ekki er hann ofsóttur vegna trúar, kynhneigðar, fötlunar eða stjórnmálaskoðana. Hann er ekki einu sinni í Rússneskri pönk hljómsveit. Eina sem Róbert var að leita eftir var að fá svona litla bláa bók með íslenska skjaldarmerkinu.“

Verður Róbert fluttur út á völl?

Að lokum veltir Valdimar framtíð mágs síns fyrir sér. Það er hvort hann megi yfirhöfuð vera hér á landinu.

„Nú veltir maður fyrir sér hvort mágur minn Róbert verður sóttur of lögreglu og nauðungar fluttur til Keflavíkurflugvallar og sendur á fyrsta farrými í fylgd lagana varða til lands draumanna,“ segir hann.

Eini möguleikinn núna er sá að kæra Útlendingastofnun til Umboðsmanns Alþingis en Valdimar veltir því fyrir sér hvort að hann hafi ekki eitthvað betra að gera en að koma vitinu fyrir Útlendingastofnun.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Páll ekki hrifinn af „derringi“ Halldórs Benjamíns – Myndi ekki henta sem formaður Sjálfstæðisflokksins

Páll ekki hrifinn af „derringi“ Halldórs Benjamíns – Myndi ekki henta sem formaður Sjálfstæðisflokksins
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Nýjustu refsiaðgerðir Biden gegn Rússlandi eru sagðar „gjöf“ til Trump

Nýjustu refsiaðgerðir Biden gegn Rússlandi eru sagðar „gjöf“ til Trump
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Þetta gætu afleiðingarnar orðið ef gýs í Bárðarbungu

Þetta gætu afleiðingarnar orðið ef gýs í Bárðarbungu
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Lýsa yfir óvissustigi vegna Bárðarbungu – Stærsti skjálftinn 5,1

Lýsa yfir óvissustigi vegna Bárðarbungu – Stærsti skjálftinn 5,1