fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Fannst nýja samstarfsfólkið í bakaríinu dónalegt en galt það dýru verði

Ritstjórn DV
Föstudaginn 14. júní 2024 13:30

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birtur var í gær úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála sem kveðinn var upp fyrir tæpum þremur vikum. Varðar málið kæru konu sem Vinnumálastofnun hafði svipt atvinnuleysisbótum á þeim grundvelli að hún hefði hafnað starfi í bakaríi sem henni hafi boðist. Sagðist konan meðal annars hafa gert það þar sem tilvonandi samstarfsfólk hennar hefði verið dónalegt við hana, aðstæður á vinnustaðnum hafi verið ófullnægjandi þegar kom að hreinlæti og vegna þess að einungis störfuðu útlendingar á vinnustaðnum sem myndi torvelda henni að læra íslensku. Þrátt fyrir þetta staðfesti nefndin ákvörðun Vinnumálastofnunar um að svipta konuna bótunum.

Í úrskurðinum segir að konan hafi verið á atvinnuleysisbótum síðan um mitt ár 2021 þar til hún var svipt þeim í upphafi þessa árs eftir að hún hafði hafnað starfinu. Konan kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála í mars síðastliðnum.

Um sjónarmið konunnar segir í úrskurðinum að Vinnumálastofnun hafi boðað hana í atvinnuviðtal hjá bakaríinu í nóvember. Niðurstaða viðtalsins var að konan myndi mæta í bakaríið í prufu nokkrum dögum seinna.

Eftir að hafa mætt í prufuna gat konan ekki hugsað sér að starfa þar. Hún sagði í kæru sinni til nefndarinnar að hún hafi útskýrt þá ákvörðun fyrir Vinnumkálastofnun. Henni hafi liðið illa í bakaríinu, hafi fundist tilvonandi samstarfsfólk dónalegt og koma illa fram við hana. Þá hafi heilbrigðishættir verið ófullnægjandi hvað varði þrif og aðstæður. Eins sé það ósk hennar að fá að vinna í umhverfi þar sem hún eigi möguleika á því að læra íslensku en hjá bakaríinu vinni einungis útlendingar sem tali enga íslensku. Konan vilji tengjast íslensku samfélagi betur í gegnum tungumálið sem henni hafi ekki fundist möguleiki á hjá bakaríinu, ef hún myndi hefja störf þar.

Hafi verið í góðri trú

Konan sagðist í kærunni hafa hafnað starfinu í góðri trú. Starfið hafi að engu leyti fallið að hennar aðstæðum og farið þvert á hennar sannfæringu. Hún hafi ekki haft hugmynd um að með því að neita starfi vegna þessara ástæðna væri hætta á því að bótaréttur hennar yrði stöðvaður. Um það hafi Vinnumálastofnun ekki veitt henni neinar leiðbeiningar og vísaði konan þar til leiðbeinigarskyldu stjórnvalda samkvæmt stjórnsýslulögum.

Vinnumálastofnun vísaði í sinni greinargerð meðal annars til ákvæða laga um atvinnuleysistryggingar sem kveði á um að fólk sem þiggi atvinnuleysisbætur verði að hafa gildar ástæður til að hafna starfi. Lögin kveði á um að viðkomandi verði að vera reiðubúinn að taka hvaða starfi sem greitt er fyrir hvar sem er á landinu og án fyrirvara. Hafni viðkomandi bótaþegi starfi skuli svipta hann rétti til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

Stofnunin sagði lögin kveða á um að hægt væri að veita undanþágu frá þessum ákvæðum ef bótaþegi hafni starfi á grundvelli aldurs, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni, umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima og vegna heimilisaðstæðna ef sé að ræða starf svo fjarri heimili viðkomandi að hann þurfi að flytja. Skýringar konunnar á því hvers vegna hún hafnaði starfinu falli ekki undir þetta og geti því ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Varanleg svipting

Stofnunin hafnaði því að hafa ekki veitt konunni nægilegar leiðbeiningar um skyldur hennnar. Konunni hafi verið veittar allar helstu upplýsingar um réttindi hennar og skyldur þegar hún hafi upphaflega sótt um bæturnar og verið bent á ítarefni um þessi efni á heimasíðu stofnunarinnar.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála segir að í ljósi þessa hafi konan vel mátt vita hvaða afleiðingar það myndi hafa að hafna starfinu í bakaríinu. Nefndin tók einnig undir það með Vinnumálastofnun að skýringar konunnar réttlættu ekki höfnun á starfinu.

Ákvörðun stofnunarinnar um að svipta konuna atvinnuleysisbótum var því staðfest. Konan hafði verið á atvinnuleysisbótum í 26 mánuði og þar sem lög um atvinnuleysistryggingar kveða á um að þau sem hafa verið lengur en 24 mánuði á atvinnuleysisbótum glati þeim alfarið (þar til frekari bótaréttur hefur verið áunninn), þegar viðkomandi sætir slíkum viðurlögum, þarf konan að starfa á íslenskum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði til að ávinna sér á ný fullan rétt til atvinnuleysisbóta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Álftnesingur réðst á lögreglumann í Valsheimilinu

Álftnesingur réðst á lögreglumann í Valsheimilinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tvíburasynir Rannveigar og Birgis Þórs fæddust eftir 25 vikna meðgöngu – „Við þurfum að vera til staðar fyrir litlu hetjurnar“

Tvíburasynir Rannveigar og Birgis Þórs fæddust eftir 25 vikna meðgöngu – „Við þurfum að vera til staðar fyrir litlu hetjurnar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“