fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

Kristján foxillur: „Vonandi tekur ekki 100 ár að afgreiða þá umsókn“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 12. júní 2024 07:56

Kristján Loftsson er framkvæmdastjóri Hvals og stór hluthafi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., er rasandi á vinnubrögðum Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra sem hefur gefið út leyfi til hvalveiða fyrir yfirstandandi ár.

Leyfilegt verður að veiða 99 dýr á svæðinu Grænland/Vestur-Ísland og 29 dýr á svæðinu Austur-Ísland/Færeyjar, eða samtals 128 dýr. Margir mánuðir eru síðan Hvalur sótti um leyfið en umsóknin lá óhreyfð í ráðuneytinu í fjóra mánuði.

Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Kristján að veiðiheimildin sé of seint komin fram þannig að nær vonlaust sé að eiga við þetta í ár.

„Við munum sækja fljótlega um veiðiheimild til hvalveiða fyrir árið 2025 og vonandi tekur ekki 100 ár að afgreiða þá umsókn,“ segir hann og bætir við að heimildin sé aðeins gefin út til 204 daga. Ef ráðherra vilji drepa atvinnurekstur sé þetta leiðin til þess.

„Fyrirsjáanleikinn er enginn og að halda að það sé hægt að setja í gang svona rekstur með engum fyrirvara er með ólíkindum,“ segir Kristján.

Ákvörðun Bjarkeyjar hefur þegar valdið titringi í ríkisstjórnarsamstarfinu en Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra, var ómyrkur í máli þegar hann tjáði sig um ákvörðun Bjarkeyjar á Alþingi í gær.

„Hún hunsar vísindamenn Hafrannsóknastofnunar. Hún notar reiknireglu sem enginn annar notar, ekki meðal þjóða sem við erum í samstarfi við í Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðinu. Þetta vekur upp spurningar um hvort hún ætli að beita reiknireglum við nýtingu annarra nytjastofna,“ sagði hann og bætti svo við:

„Maður er, virðulegur forseti, orðlaus yfir ósvífni ráðherrans gagnvart starfsfólki og fyrirtæki í þessu tilfelli. Það er allt gert, að því er virðist, af geðþótta og lítilli eða engri virðingu fyrir fólki, lögum eða stjórnarskrá. Slík stjórnsýsla er ólíðandi. Þetta er ólíðandi misbeiting á valdi sem ráðherra hefur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt