Nágrannasveitarfélög Reykjavíkur hafa lækkað víða hámarkshraða á götum undanfarið. Eru lækkanir til að mynda á fullu skriði í Kópavogi, Hafnarfirði og í Garðabæ.
Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, boðaði miklar lækkanir á hámarkshraða í aprílmánuði árið 2021. Ein helsta ástæðan var til þess að draga úr magni svifryks í borgarlandinu.
Rannsókn sem framkvæmd var í Háskóla Íslands sýndi að með því að lækka hámarkshraða úr 50 km/klst í 30 væri hægt að minnka svifryksmyndun um allt að 40 prósent.
Þá sagði Dagur einnig að borgarstjórnir erlendis, sem Reykjavík ber sig saman við, væru margar hverjar að lækka hámarkshraðann.
Í lok mars tilkynnti Kópavogsbær að hámarkshraði hefði verið lækkaður í 57 götum þar sem bærinn er veghaldari. Þetta næstum allar göturnar þar sem hámarkshraði var 50 km/klst og var hraðinn færður niður í annað hvort 40 eða 30 km/klst. Það er um helmingur í hvorum flokki.
Aðeins þrjár götur héldu 50 km/klst hámarkshraða. Það eru Digranesvegur milli Hlíðarhjalla og Dalvegs, Vatnsendavegur og Dalvegur milli Fífuhvammsvegar og Digranesvegar.
Í apríl var hraði svo lækkaður í 66 stöðum í Hafnarfirði. Ólíkt Kópavogi voru mun fleiri götur lækkaðar úr 50 km/klst í 40 en í 30. Það er 59 á móti aðeins 7.
Í Kópavogi og í Hafnarfirði hafa fulltrúar einkum nefnt umferðaröryggi sem helstu ástæðuna fyrir lækkuninni. Lét Hafnarfjarðarbær gera fyrir sig skýrslu um fjölda óhappa í umferðinni.
Þær húsagötur og flestar safngötur þar sem Garðabær er veghaldari hafa 30 km/klst hámarkshraða nú þegar. Tengibrautir og stofnbrautir sem Vegagerðin sér um hafa meiri hraða. Verið er nú í samstarfi við umferðarráðgjafa að sjá hvar sé hægt að lækka hraða á tengibrautum, svo sem Norðurnesveg og Suðurnesveg, Bæjarbraut, Karlabraut og fleiri vegi.
Þá hefur Garðabær komið upp mikið af hraðahindrunum og þrengingum undanfarið, sérstaklega í kringum skóla. Meðal annars á Urriðaholtsstræti þar sem 30 km/klst hámarkshraði var lítið virtur.
„Reynsla erlendis sýnir að lækkun hámarkshraða með skilti einungis lækkar raunhraða að meðaltali um 5% sem getur fækkað alvarlega slösuðum og látnum um 10%. Hraðatakmarkandi aðgerðir geta hins vegar fækkað þeim um 30%. Samþætting beggja aðgerða er því mikilvæg til ná árangri um bætt umferðaröryggi,“ segir í minnisblaði Garðabæjar um lækkun hámarkshraða.