fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Fréttir

Barnaníðingur í fimm ára fangelsi – Sagðist hafa fengið þráhyggju fyrir litlu systur sambýliskonu sinnar

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 7. júní 2024 18:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur þyngdi í dag fangelsisdóm yfir manni úr fjögurra ára í fimm ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barni, en maðurinn var sakaður um ítrekuð brot gegn stúlku  sem stóðu yfir í mörg ár, frá því hún var 11 ára og fram til 17 ára aldurs.

Í janúar árið 2023 var maðurinn sakfelldur í Héraðsdómi Vestfjarða og dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Brotaþoli er systir sambýliskonu mannsins.

Ákæruliðir eru fjórir og í þeim fyrsta er greint frá því tveimur brotum. Annað atvikið átti sér stað í fellihýsi sumarið 2016 þar sem maðurinn þuklaði á brjóstum stúlkunnar innanklæða og setti fingur inn í leggöng hennar. Stúlkan var þá 13 ára gömul. Hitt atvikið var um jólin 2017 inni á heimili barnsins, sem þá var orðin 14 ára, og var það mjög áþekkt brot.

Í öðrum ákærulið er greint frá nauðgun sem átti sér stað á sveitabæ í febrúar árið 2019. Var um að ræða sömu athafnir og í ákærulið eitt en þarna er tekið fram að stúlkan hafi verið sofandi þegar brotið átti sér stað.

Í lið þrjú er maðurinn ákærður fyrir kynferðislega áreitni gegn barni, fyrir að hafa árum saman og hvað eftir annað áreitt stúlkuna á samskiptaforritinu Snapchat með því að fá hana til að senda af sér nektarmyndir og fyrir að senda henni myndir af kynfærum sínum, sem og að senda henni gróf kynferðisleg skilaboð. Loks var maðurinn í fjórða lið ákærður fyrir þukl á stúlkunni árið 2021.

Sagðist hafa verið með þráhyggju fyrir stúlkunni

Stúlkan kærði manninn til lögreglu í mars árið 2022. Kom fram í skýrslutöku af henni að maðurinn hefði byrjað að áreita hana ársið 2014 með því að biðja hana um nektarmyndir af sér. Hefði hann mútað henni til þess með snyrtivörum. Þetta hefði haldið áfram og orðið grófara, eins og áðurnefndir ákæruliðir bera með sér.

Maðurinn játaði brot sín að miklu en ekki öllu leyti bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Hann var hins vegar sakfelldur fyrir alla ákæruliðina. Maðurinn sagðist hafa fengið þráhyggju fyrir stúlkunni og sagði einnig að hún hefði tekið háttsemi hans vel. Brotin hefðu verið honum spennulosun en svo hefði hefði honum liðið illa eftir þau út af ungum aldri stúlkunnar.

Stúlkan dró lengi að segja frá ofbeldinu því hún vildi ekki eyðileggja líf systur sinnar. Áður en hún kærði til lögreglu sagði hún systur sinni frá áreitninni og segir hún að systirin hafi sagt að þetta kæmi sér ekki á óvart. Fyrir dómi sagði systirin hins vegar að henni hefði brugðið við að heyra þetta og liðið ömurlega yfir glæpum mannsins gagnvart systur hennar. Hún sagðist hins vegar ekki hafa orðið vör við neitt óeðlilegt.

Í vitnaleiðslum kom fram að stúlkan hefði lent í miklu einelti í skóla. Móðir hennar segir að hún hafi vitað um eineltið en hún hafi ekkert vitað um kynferðisbrot mannsins gegn barninu fyrr en hún sagði henni frá því. Hinn ákærði hafði samband við hana og föður stúlkunnar, grét og sýndi iðrun. Móðirin sagðist ekki vita hvernig dóttur hennar liði út af þessu, að hún vildi ekki ræða það mikið.

Faðirinn sagði fyrir dómi að hann vissi ekki mikið um málið, vildi ekki vita mikið um það því hann væri skapbráður og hann óttaðist að taka það út á hinum ákærða. Sagði hann að dóttur hans liði illa, hún væri niðurbrotin.

Mistnotaði freklega yfirburðastöðu sína

Sem fyrr segir var maðurinn sakfelldur fyrir alla ákæruliði. Hann hefur ekki hlotið refsingu áður. Í niðurstöðu héraðsdóms sagði:

„Brot ákærða beindist gegn systur sambúðarkonu hans sem var aðeins 11 ára þegar brotin hófust og stóðu yfir þar til brotaþoli var orðin 18 ára. Misnotaði hann freklega yfirburðastöðu sína gagnvart brotaþola, trúnað hennar og traust, og á hann sér engar málsbætur.“

Fyrir utan að þyngja fangelsisrefsingu mannsins í fimm ár þá hækkaði Landsréttur upphæð miskabóta um hálfa milljón króna og dæmir manninn til að greiða stúlkunni þrjár milljónir króna í miskabætur.

Dóma Landsréttar og héraðsdóms í málinu má lesa hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Kleini auglýsir lúxusgullkúlublómapotta keypta á AliBaba- Álagningin er yfirgengileg en frí heimsending fylgir

Kleini auglýsir lúxusgullkúlublómapotta keypta á AliBaba- Álagningin er yfirgengileg en frí heimsending fylgir
Fréttir
Í gær

Hvað eiga Danir að gera við yfirgangi Trumps? – „Grænland er orðið mikilvægt fyrir öryggishagsmuni Bandaríkjanna“

Hvað eiga Danir að gera við yfirgangi Trumps? – „Grænland er orðið mikilvægt fyrir öryggishagsmuni Bandaríkjanna“
Fréttir
Í gær

Áslaug Arna selur framboðsvarning – Hjartastuðtæki og Heimlich-leiðbeiningar fylgja ekki með

Áslaug Arna selur framboðsvarning – Hjartastuðtæki og Heimlich-leiðbeiningar fylgja ekki með
Fréttir
Í gær

Snorri fagnar mótframboði Áslaugar Örnu – „Hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann“

Snorri fagnar mótframboði Áslaugar Örnu – „Hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann“
Fréttir
Í gær

Hleypti óvart af hólknum í miðju hlaðvarpsviðtali – „Hver skaut hvern?“

Hleypti óvart af hólknum í miðju hlaðvarpsviðtali – „Hver skaut hvern?“