„ASÍ og stéttarfélögin hafa gögn undir höndum sem sýna að sendlar hjá Wolt á Íslandi sem hjóla, keyra eða ganga með matarsendingar með rennblautan 7 stiga vorlægðarvindinn í andlitið, gera það fyrir skammarlega léleg laun, “ segja þau Halldór Oddsson og Saga Kjartansdóttir í aðsendri grein á Vísir.is. Halldór er sviðsstjóri lögfræði- og vinnumarkaðassviðs ASÍ og Saga er sérfræðingur á sama sviði.
Sendlaþjónustan Wolt er til rannsóknar hjá lögreglu og á fyrirtækið yfir höfði sér kæru vegna meintra brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Lögreglan hefur undanfarið haft afskipti af fólki sem starfar án atvinnuréttinda fyrir Wolt. Þau Halldór og Saga skrifa í upphafi greinar sinnar:
„Nýverið komu fram fréttir af því að um 20 af okkar berskjölduðustu systkinum hafi „gerst sek“ um brot á atvinnuréttindum útlendinga með því að sendast með mat fyrir eitthvað fyrirbæri sem heitir Wolt. Viðbrögð fyrirbærisins Wolt í kjölfarið slær líklega öll fyrri met um algjört skeytingar- og ábyrgðarleysi alþjóðlegra fyrirtækja sem leynt og ljóst byggja viðskiptamódel sitt á hagnýtingu einstaklinga í berskjaldaðri stöðu. Kerfi sem varpar ábyrgðinni á fátækt fólk í neyð en horfir fram hjá ábyrgð alþjóðlegra stórfyrirtækja hlýtur að kalla á stórar spurningar. Um leið og undirrituð kalla eftir því að yfirvöld meðhöndli mál þessara berskjölduðu systkina okkar af mannúð, er rétt að beina athyglinni að því hvar ábyrgðin liggur í raun og veru.“
Þau segja að fyrirtæki sem sérhæfa sig í að miðla þjónustumöguleikum með rafrænum hætti til notenda (eins og t.d. Wolt og Uber) hafi sum hver gleymt sér í ábyrgðarlausri gróðahyggju og noti tækninýjungar til að keyra niður kjör þeirra sem vinna störfin:
„Kerfið byggir svo á fullkomlega ógagnsæjum einhliða verðmyndunar-algóriþma sem hannaður er til að finna sársaukaþröskuldinn um hversu fáar krónur er hægt að koma í vasa sendilsins án þess að viðkomandi hætti að sjá tilgang vinnunnar. Framangreint rímar fullkomlega við það sem virðist vera í gangi hjá Wolt og mörgum sambærilegum fyrirbærum í löndunum í kringum okkur.“
Greinarhöfundar segja að þeir sem kaupi sér grunsamlega ódýra vöru eða þjónustu séu að velja ábyrgðarleysi og snúa blinda auganu að misnotkun á fólki í erfiðri stöðu. Þegar eitthvað sé grunsamlega ódýrt sé það alltaf einhver sem borgi brúsann á endanum. Þau skora á einstaklinga og fyrirtæki að sýna samfélagslega ábyrgð í þessum efnum:
„Það er auðvelt að snúa blinda auganu að breytingum á vinnumarkaði og vera hluti af ábyrgðarlausri forréttindastétt sem leyfir sér að kaupa grunsamlega ódýra vöru/þjónustu sem byggir að stórum hluta á hagnýtingu einstaklinga sem ef hefðu val, myndu ekki velja sér þau störf sem engin annar vill. En að velja blinda augað er í raun að velja ábyrgðarleysi. Undirrituð skora á neytendur og þau fyrirtæki sem velja að tengja nafnið sitt við Wolt að spyrja áleitinna spurninga um kjör sendla og vera hluti af lausninni frekar en vandanum.“
Greinina í heild má lesa hér.