„Hefði hún haft öruggara forskot hefði að mínu mati ekki komið til þessa sambræðings gegn henni á lokametrum kosningabaráttunnar,“ segir hún í viðtali við Morgunblaðið í dag þar sem forsetakosningarnar um helgina eru gerðar upp.
Stefanía segir að svo virðist sem ákveðinn hópur kjósenda hafi ákveðið að kjósa taktískt til að Katrín ynni ekki kosningarnar. Bendir hún á að Halla hafi á lokametrum baráttunnar verið komin í góða stöðu og nærri jöfn Katrínu. „Það auðveldaði ýmsum, sem kannski hefðu ætlað að kjósa Höllu Hrund eða Baldur, að kjósa frekar Höllu Tómasdóttur, af því að þeir vildu tryggja að Katrín ynni ekki og skildu þar með sína frambjóðendur eftir með sárt ennið,“ segir hún.
Margir töldu að Katrín myndi hafa sigur, sérstaklega í ljósi þess að hún naut stuðnings úr öðrum flokkum, Sjálfstæðisflokknum einna helst. En það dugði ekki til og segir Stefanía að ýmsar ástæður geti legið þar að baki.
„Ég held að ýmsir stuðningsmenn Samfylkingarinnar hafi verið pirraðir út í hana fyrir að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Síðan held ég að töluvert sé til í þeirri kenningu að sumt fólk telji að forsetinn eigi að vera mótvægi við ríkisstjórnina, þ.e. eigi ekki að vera í sama liði og hún. Síðan held ég að einhverjum hafi mislíkað hvað hún hætti skyndilega og fara úr því að vera forsætisráðherra yfir í forsetaembættið, þótt það of mikill metnaður.“