Halla Tómasdóttir sigraði forsetakosningarnar með góðum mun. Eftir því sem atkvæði hafa verið talin í nótt hefur munurinn á henni og Katrínu Jakobsdóttur aðeins aukist. Lokatölur úr öllum kjördæmum hafa borist.
Halla Tómasdóttir fékk 71.660 atkvæði eða 34,3 prósent.
Katrín Jakobsdóttir fékk 52.731 atkvæði eða 25,2 prósent.
Halla Hrund Logadóttir fékk 32.420 atkvæði eða 15,5 prósent.
Jón Gnarr fékk 21.244 atkvæði eða 10,2 prósent.
Baldur Þórhallsson fékk 17.434 atkvæði eða 8,3 prósent.
Arnar Þór Jónsson fékk 10.698 atkvæði eða 5,1 prósent.
Aðrir hafa fengið undir einu prósenti.
Ljóst er miðað við kannanir að fylgið hefur sveiflast mikið undanfarna daga. Einkum frá Baldri Þórhallssyni og Höllu Hrund Logadóttur yfir til Höllu Tómasdóttur. Skýrendur segja augljós merki um að fólk hafi kosið taktískt á síðustu stundu, einkum til þess að kjósa gegn Katrínu Jakobsdóttur.
Ekki er mjög mikill munur á stuðningi við Höllu Tómasdóttur eftir kjördæmum. Mestan stuðning hefur hún fengið úr Suðvesturkjördæmi, eða 37,8 prósent.