Halla Tómasdóttir var sú fjórða í röðinni af þeim forsetaframbjóðendum sem hafa verið með mest fylgi í skoðanakönnunum til að kjósa í forsetakosningunum í dag. Hún kaus í Ráðhúsi Reykjavíkurborgar núna klukkan 11:30. Ljósmyndari DV var á staðnum.
Halla hefur unnið mikið á í skoðanakönnunum eftir því sem liðið hefur á kosningabaráttuna og í síðustu könnunum hefur hún ýmist leitt, verið með sama fylgi og Katrín Jakobsdóttir í efsta sæti, eða fylgt fast á hæla Katrínar í öðru sæti.
Þau sem talað hafa fyrir mikilvægi þess að kjósa taktískt til að tryggja að Katrín verði ekki forseti hafa bent á að best sé þá að kjósa Höllu. Stjórnmálaskýrendur hafa einnig bent á að standi vilji fólk til þess að kjósa taktískt til að hindra kjör Katrínar blasi við að kjósa Höllu þar sem hún hefur slitið sig eilítið frá öðrum frambjóðendum en Katrínu í könnunum.
Eins og þegar Halla bauð sig fram í forsetakosningunum 2016 hefur hún unnið mikið á eftir því sem liðið hefur á baráttuna en hvort það dugar í þetta sinn til að enda á Bessastöðum á hins vegar eftir að koma í ljós.
Nokkrar myndir af Höllu ásamt Birni Skúlasyni eigimanni hennar og börnum þeirra, á kjörstað í Ráðhúsinu, má sjá hér fyrir neðan: