Frambjóðendur til forseta Íslands halda áfram að kjósa. Katrín Jakobsdóttir reið á vaðið klukkan 9:00 í Hagaskóla en Baldur Þórhallsson fylgi fljótlega í kjölfarið klukkan 9:15, einnig í Hagaskóla. Ljósmyndari DV var á staðnum og fylgdist með því þegar Baldur skilaði atkvæði sínu.
Baldur hefur í skoðanakönnunum yfirleitt verið í 3-4 sæti en munurinn yfirleitt verið lítill milli efstu frambjóðenda svo að það er ekki ómögulegt að hann geti komið á óvart.
Verði Baldur kjörinn forseti yrði brotið blað í lýðveldissögunni þar sem í fyrsta sinn yrði forsetinn opinberlega samkynhneigður. Það yrði einnig í fyrsta sinn í heiminum sem að samkynhneigður maður yrði þjóðkjörinn forseti en Baldur yrði þó ekki fyrsti samkynhneigði maðurinn í veröldinni til að verða þjóðhöfðingi.
Stjórnmálaskýrendur eiga almennt ekki von á því að Baldur beri sigur úr býtum miðað við fylgi hans í könnunum en hann og stuðningsmenn hans eru bjartsýnir.
Mynd: Valli