Mikið gekk á í Héraðsdómi Reykjaness í morgun þegar þingfest var mál gegn margdæmdum ofbeldismanni, Mohamad Kourani, fyrir hnífstunguárás í versluninni OK Market að Hlíðarenda í marsmánuði síðastliðnum.
Mohamad er ákærður fyrir að hafa stungið tvo menn með hnífi í versluninni. Hann hefur áður fengið 14 mánaða fangelsi fyrir árás á starfsmann Frumherja sem meinaði honum um stimpil fyrir ökuréttindum þar sem hann hafði ekki tekið ökupróf. Mohamad hefur einnig meðal annars verið sakfelldur fyrir sprengjuhótun.
Skömmu eftir árásina í OK Market steig fram Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari og lýsti áralöngum lífslátshótunum og áreiti Mohamads við sig og fjölskyldu sína. Helgi lýsti þar þeirri skoðun sinni að vísa ætti manninum úr landi. „Það skiptir greinilega minna máli öryggi okkar sem vinnum í kerfinu fyrir almenning og öryggi fjölskyldna okkar, þar með talið lögreglumanna sem hafa haft af honum afskipti. Heldur skiptir meira máli að veita slíkum manni uppihald og framfærslu úr sameiginlegum sjóðum,“ skrifar hann á Facebook-síðu sína í marsmánuði.
Sem fyrr segir lét Mohamad Kourani öllum illum látum við þingfestinguna í morgun og hefur starfsfólk dómsins varla ef nokkurn tíma upplifað annað eins. Hann hótaði dómara, brotaþolum, saksóknara og jafnvel sínum eigin lögmanni lífláti. Gekk svo illa að ljúka við dómsathöfnina vegna óláta mannsins að dómstjóri missti þolinmæðina og þrumaði yfir honum að halda kjafti. Stuttu síðar sagði ítrekaði dómstjórinn skipun sína: „Ég var búinn að segja þér að grjóthalda kjafti!“
Mohamad var færður í dómsal í járnum en þau síðan tekin af honum er hann hlýddi á ákæru og tók afstöðu til hennar. Að þingfestingunni lokinni brutust síðan út átök er lögreglumenn ætluðu að færa Mohamad aftur í járn. Veitti hann mikla mótspyrnu og þurftu lögreglumenn að beita afli til að handjárna hann á ný.
Mohamad hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna almannahagsmuna allt frá árásinni í mars og verður það áfram. Aðalmeðferð í málinu verður 21. ágúst.