Eiríkur Ingi komst lífs af úr skelfilegu sjóslysi undan ströndum Noregs í janúar 2012 þegar Hallgrímur SI-77 sökk. Eiríkur var í sjónum í fjórar klukkustundir áður en honum var bjargað.
Hann ræddi slysið í eftirminnilegu viðtali við RÚV á sínum tíma.
Eiríkur segir að oft sé það þannig að hvert áfallið rekur annað.
„Þú verður að vinna úr áföllunum. Ef þú vinnur ekki almennilega úr þeim, þá ertu ekki tilbúinn fyrir það næsta. Það kemur alltaf annað. Það er bara svoleiðis.“
Eiríkur segist í viðtalinu hafa upplifað erfið ár eftir slysið en ákveðið að leggjast ekki í volæði. Aðeins ári eftir slysið gekk hann í gegnum erfiðan skilnað.
„Það tók virkilega á. En ef maður féll ekki saman þá, þá er maður ekki að fara að falla saman í framtíðinni,“ segir hann og bætir við að erfitt hafi verið að kveðja hugmyndina um þá föstu fjölskyldumynd sem hann átti í huganum.
Í viðtalinu segist Eiríkur ekki vera lífhræddur en hann ætlar sér að verða 130 ára.
„Ég vona að ég læri þangað til ég dey. Ég er með stórar uppfinningar í hausnum sem ég þarf að klára.“