fbpx
Laugardagur 18.janúar 2025
Fréttir

Dregið verulega úr virkni eldgossins

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 30. maí 2024 12:39

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér nýja tilkynningu um stöðu eldgossins norður af Grindavík sem hófst fyrir um sólarhring. Helstu tíðindi eru þau að verulega hefur dregið úr virkni eldgossins síðan í gær.

Önnur helstu tíðindi eru þau að hraunrennsli er aðallega á svæðinu í kringum Hagafell. Engin sprengivirkni hefur verið síðan síðdegis í gær. GPS mælingar sýna að land í Svartsengi seig um 15 sentímetra þegar kvika hljóp þaðan. Spáð er möguleg gasmengun á Suðurlandi í dag og á Höfuðborgarsvæðinu síðdegis og á morgun. Gasdreifingarspá er aðgengileg hér

Einnig er talsverð óvissa um magn gastegunda frá gosstöðvunum. Rauntímamælingar á loftgæðum eru aðgengilegar á vef Umhverfisstofnunar.

Tilkynning Veðurstofunnar í heild sinni fer hér á eftir:

Frá því síðdegis í gær hefur dregið verulega úr virkni á gossprungunni við Sundhnúksgígaröðin. Virknin í gosinu hefur verið á svipuðum nótum í nótt og í morgun en gosórói hefur verið stöðugur síðan seint í gærkvöldi. Engin sprengivirkni hefur sést síðan í síðdegis í gær, en gufusprengingar urðu þar sem hraun flæddi ofan í sprungur og komst í snertingu við grunnvatn við Hagafell. Virkni er mest nærri þeim gíg sem var lengst virkastur í eldgosinu sem hófst 16. mars og virkni á nokkrum hlutum gossprungunnar norðan hans. Hraunrennsli er nú mest á svæðinu í kringum Hagafelli. Hægt hefur á framrás hraunrennslis við Grindavíkurveg til móts við Svartsengi og við varnargarðana vestur af Grindavík.

Sérfræðingar úr myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands fóru í mælingaflug yfir gosstöðvarnar. Aðstæður til loftmyndatöku voru krefjandi þar sem gosmökkurinn lá yfir hluta hraunbreiðunnar sem myndaðist í upphafi gossins. Verið er að vinna frekar úr þeim gögnum sem náðust í loftmyndafluginu ásamt því að nota gervitunglamyndir til þess að fá skýrari mynd á hraunflæði fyrstu klukkustundir gossins. Meðfylgjandi kort sýnir gróflega áætlaðar útlínur hraunbreiðunnar, eins og þær voru um kl. 17 í gær, eða þegar eldgosið hafði staðið í rúmar fjórar klukkustundir. Staðsetningu gossprungunnar einnig sýnd með rauðum strikalínum.

Mynd: Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands

Land seig í Svartsengi um 15 cm þegar kvika hljóp þaðan

Gervitunglamyndir teknar snemma í morgun, 30. maí, sýna ekki markverðar hreyfingar á sprungum innan varnargarða við Grindavík. Rauntímaaflögunarmælingar sýna einnig að frá því í gærkvöldi hefur ekki mælst markverð aflögun þar.

GPS mælingar sýna að land í Svartsengi seig um 15 cm þegar kvika hljóp þaðan yfir í Sundhnúksgígaröðina í gær. Kvikugangur sem myndaðist og fæðir nú eldgosið nær frá Stóra-Skógfelli að Hagafelli. Áætlað er að um 15 milljón rúmmetrar af kviku séu nú þegar farin úr kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi.

Mælingar næstu daga munu gefa frekari upplýsingar um þróun á kvikusöfnun undir Svartsengi og mögulega þróun eldgossins. Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og fylgjast með þróun atburðarins.

Gasdreifingarspá

Spá veðurvaktar framan af degi (fimmtudag) er vestlæg átt og gasmengun berst þá til austurs og gæti hennar orðið vart í Ölfusi og víðar á Suðurlandi. Suðvestlægari vindur síðdegis og áfram á morgun (föstudag). Berst þá gasmengun til norðausturs og gæti hennar orðið vart á höfuðborgarsvæðinu. Talsverð óvissa er þó með magn gastegunda frá gosstöðvunum. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá og rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgaedi.is.

Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um gosmóðu í Mývatnssveit, á Jökuldal og á Flúðum, ásamt því að mælast á mæli Umhverfisstofnunar á Húsavík. Miðað við gasdreifingarspá má ætla að stór hluti landsins geti orðið var við gosmóðu í dag. Gosmóða er samsett úr brennisteinsögnum (SO4) sem hafa orðið til vegna efnahvarfa gosmakkarins við súrefni andrúmsloftsins. Þetta gerist hraðar þegar lofthiti er meiri og sól skín, líkt og var raunin í gær þegar gosið hófst. Þessar brennisteinsagnir mælast ekki á SO2 gasmælum en sjást hins vegar sem gráblá móða þegar ákveðnum styrk er náð. Hækkun á örfínu svifryki (PM1 og PM2.5) getur verið vísbending um að SO4 sé til staðar. Þau gildi sem hafa mælst í dag eru ekki yfir neinum heilsufarsmörkum, en hægt er að fylgjast með loftgæðamælum umhverfisstofnunar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar
Fréttir
Í gær

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vekur athygli á að glæraísing geti myndast á höfuðborgarsvæðinu síðdegis

Vekur athygli á að glæraísing geti myndast á höfuðborgarsvæðinu síðdegis