Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum hefur dregið nokkuð úr krafti eldgossins norðan við Grindavík, sem hófst fyrir um 10 klukkustundum, eftir því sem liðið hefur á daginn. Eitthvað jókst þó krafturinn í gosinu nú undir kvöld en náði þó ekki sömu hæðum og fyrr í dag. Virkni í gossprungunni hefur færst í norður og Grindavík og tilheyrandi innviðum stendur því minni hætta af hraunflæðinu, sem þar að auki hefur minnkað. Þar af leiðandi er talin minni hætta á því að Suðurstrandarvegur fari undir hraun og þar með lokist allir vegir til Grindavíkur en hraun hefur nú þegar flætt yfir Nesveg og Grindavíkurveg.
Á Facebook-síðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands segir í færslu sem birt var fyrir stundu að aukinn kraftur virðist hafa færst í gosvirknina við Sundhnúka á nýjan leik í kvöld. Eldveggur hafi birst upp úr klukkan 20:00 á svæði sem hefði koðnað verulega niður. Sé hann við gíginn sem lifði lengst í síðasta gosi.
Vísindamenn og Almannavarnir segja varnargarða við Grindavík hafa haldið vel og sannað gildi sitt.
Víðir Reynisson sviðstjóri Almannavarna, sem fyrr í dag lýsti yfir verulegum áhyggjum af því að Suðurstrandarvegur færi undir hraun og þannig yrði landleiðin til Grindavíkur alveg lokuð, tjáði RÚV fyrr í kvöld að þessar áhyggjur Almannavarna hefðu minnkað talsvert. Sagði Víðir Almannavarnir þá einkum horfa til minni krafts í gosinu en var fyrr í dag og þess að hraunflæðið væri orðið minna og framrás þess ekki eins öflug.