fbpx
Sunnudagur 07.júlí 2024
Fréttir

Gefur lítið fyrir loforð ráðherra um að Landsvirkjun verði aldrei einkavædd og minnir á Landssímann – „Já, það stóð aldrei til að selja Landssímann“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 28. maí 2024 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsvirkjun skilaði metafkomu á síðasta ári, þriðja árið í röð. Árangurinn var slíkur að í febrúar lagði stjórn félagsins til að 20 milljarðar yrðu greiddir út í arð líkt og árin á undan. Samanlagður arður vegna rekstraráranna 2021-2023 nam rúmum 55 milljörðum.  Fjárhagsstaða félagsins hefur aldrei verið betri og eiginfjárhlutfall hærra en nokkru sinni áður.  Landsvirkjun er opinbert fyrirtæki í eigu íslenska ríkisins og er stærsti raforkuframleiðandi landsins fyrir utan að vera gífurleg tekjulind fyrir ríkissjóð. Þar sem reksturinn er í gífurlegum blóma og hagnaður í hæstu hæðum gæti mörgum langað til að fá að vera með í veislunni. En stendur til að hleypa fleirum að borðinu? Verður Landsvirkjun einkavædd?

Deilt um hvort standi til að einkavæða Landsvirkjun

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi, sagðist í samtali við Vísi sjá fram á gjörbreytingu í fjárfestingum og sölu á orkufyrirtækjum. Hún sagði mikla kröfu vera um sölu Landsvirkjunar og muni málið að hennar mati rata inn á borð næsta forseta. Hún hafi í starfi sínu sem orkumálastjóri reynt að standa vörð um þetta mikla hagsmunamál enda byggi Landsvirkjun á auðlindum lands og þjóðar sem eigi og verði að vera í yfirráðum lands og þjóðar áfram. Því þurfi forseta sem geti staðið í lappirnar ef reynt verður að selja Landsvirkjun. Þetta væri mál sem yrði að vera ákveðið af þjóðinni í gegnum þjóðaratkvæðisgreiðslu.

Ummæli Höllu vöktu töluverða athygli.  Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar sagði í samtali við mbl.is að engin stjórnmálaflokkur hafi talað fyrir sölu Landsvirkjunar. Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði slíka sölu ekki standa til og hafi ekki komið til umræðu. Framsókn hafi margoft ályktað á flokksþingum sínum að Landsvirkjun eigi að vera að fullu í eigu þjóðarinnar um ókomna tíð. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sagði sölu Landsvirkjunar ekki standa til á næstunni eða næstu árum. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sagði Landsvirkjun eigu þjóðarinnar og verði ekki einkavædd.

Stóð aldrei til að selja Landssímann

Fyrrum ráðherrann Jón Bjarnason gaf á bloggsíðu sinni um helgina lítið fyrir loforð ráðherranna um að Landsvirkjun verði ekki einkavædd. Þetta sé kunnuglegt stef þegar horft sé til Landssímamálsins.

„Þær eru kostulegar yfirlýsingar ýmissa ráðherra og forystu í stjórnmálum. „Landsvirkjun verður ekki seld!“ Ég minnist þess þegar ráðherrar strengdu þess heit að Landssíminn verði aldrei seldur, bara sett hf. fyrir aftan til að „auðvelda rekstrarform“. Landssíminn var seldur skömmu fyrir hrun af ráðherrum sem áður höfðu stigið á stokk. Kaupandinn var „Skipti hf“ sem ég held að sé ekki lengur til. Einkafyrirtækið Míla var stofnað og fékk til sín grunnnet og fjarskiptakerfi landsmanna.“

Nokkrum árum síðar hafi franskur fjárfestir komið til sögunnar og keypt upp Mílu. Þá var skorað á ríkisstjórnina að beita forkaupsrétti sínum og leysa til sín grunnfjarskipti landsmanna. Míla hafi engu að síður verið seld úr landi og efa megi að söluandvirðið hafi skilað sér til þjóðarinnar.

„Orð og yfirlýsingar eru ekki alltaf mikils virði. Það eru verkin sem tala. Já, það stóð aldrei til að selja Landssímann“

Jón bendir á að meirihluti aðspurðra í könnun Gallup á sínum tíma hafi verið á móti sölu Landssímans. Þess má geta að þegar þjóðin hefur undanfarin ár verið spurð um mögulega einkavæðingu Landsvirkjunar þá er mikill meirihluti landsmanna andvígur því.

Forsætisráðherra hlynntur sölu

Sala Landsvirkjunar hefur ítrekað komið til umræðu síðasta áratuginn eða svo. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, talaði sjálfur fyrir sölu á þriðjung Landsvirkjunar árið 2013. Á þeim tíma var reksturinn ekki að skila það miklu til ríkissjóðs og taldi Bjarni að með sölu þriðjungs hluta félagsins gæti ríkið fengið til sín um 100 milljarða sem myndu nýtast vel til að niðurgreiða skuldir. Þá var Landsvirkjun metin á um 300 milljarða. Að mati Viðskiptaráðs Íslands, sem hvöttu til sölu Landsvirkjunar fyrir ekki lengra síðan en í mars á þessu ári, er Landsvirkjun nú 726 milljarða virði. Bjarni var enn sömu skoðunar árið 2018 þegar hann sagði á ársfundi Landsvirkjunar að það væri óeðlilegt að ríkið væri ráðandi á raforkumarkaði og að stuðla þurfi að aukinni samkeppni.

Fleiri hafa lagt til einkavæðingu Landsvirkjunar og í raun lagði fyrrum ráðherrann Ögmundur Jónasson til árið 2019 að fyrst ríkið  hefði ákveðið að kaupa hlut Landsvirkjunar í Landsneti væri ljóst að af stað væri farinn einkavæðingakapall í orkugeiranum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem þá var ráðherra iðnaðar, sagði þó ekkert hæft í þeirri kenningu og einkavæðing ekki á kortum ríkisstjórnarinnar.

Þremur árum síðar, árið 2022, sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, þáverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, í samtali við Fréttablaðið að til greina kæmi að selja 30-40 prósent Landsvirkjunar. Þá var Landsvirkjun farin að skila gífurlegum arði og taldi Guðrún ekki ólíklegt að þetta myndi auka pólitískan áhuga á að breyta rekstrarforminu. Guðrún nefndi sérstaklega sölu til lífeyrissjóðanna sem hægt væri að binda skilyrðum.

Í hvert sinn sem þessi umræða fer að stað berast mótmæli frá verkalýð og fleirum. Landsvirkjun eigi að vera ríkiseign enda eigi þjóðin að njóta góðs af starfseminni sem grundvallist á auðlindum þjóðarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Foden vorkennir Southgate
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stórsigur Verkamannaflokksins – Starmer verður forsætisráðherra

Stórsigur Verkamannaflokksins – Starmer verður forsætisráðherra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hryðjuverk í Kákasus sýnir veikleika Rússa á svæðinu

Hryðjuverk í Kákasus sýnir veikleika Rússa á svæðinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Alvarlegt umferðarslys við Gígjukvísl

Alvarlegt umferðarslys við Gígjukvísl
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Breiðablik ósátt við Kópavogsbæ og vill fá styrk

Breiðablik ósátt við Kópavogsbæ og vill fá styrk
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kristján hjólar í uppgjafaprófessor út af „helför“ RÚV – „Eiríkur Rögnvaldsson ætlar að verja með kjafti og klóm þau hryðjuverk sem ég kalla hvorugkynssýki“

Kristján hjólar í uppgjafaprófessor út af „helför“ RÚV – „Eiríkur Rögnvaldsson ætlar að verja með kjafti og klóm þau hryðjuverk sem ég kalla hvorugkynssýki“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fullyrti að einhver annar hefði tekið yfirdráttarlán hjá Arion banka í hans nafni

Fullyrti að einhver annar hefði tekið yfirdráttarlán hjá Arion banka í hans nafni