fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fréttir

Missti hluta af öðru nýranu en fær engar bætur

Ritstjórn DV
Mánudaginn 27. maí 2024 12:30

Mynd: DV/Maggi gnúsari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur kvað fyrir helgi upp dóm í máli sem kona nokkur höfðaði á hendur annarri konu vegna slyss sem hin fyrrnefnda varð fyrir 2018 þegar hún féll af baki hests í eigu hinnar síðarnefndu. Þegar slysið átti sér stað var konan sem höfðaði málið 16 ára gömul en í slysinu hlaut hún alvarlega áverka og missti meðal annars þriðjung af öðru nýranu. Landsréttur staðfesti hins vegar dóm héraðsdóms um að konan ætti ekki rétt á neinum bótum frá eiganda hestsins.

Um slysið sjálft segir í dómi héraðsdóms sem fylgir með dómi Landsréttar að um leið og konan, sem þá var enn stúlka, var komin á bak hestinum hafi hann tekið á rás frá gerðinu. Henni hafi tekist að halda sér á baki hestinum en að endingu hafi hann snarstoppað fyrir framan stálgrindargerði í hesthúsagötu. Við það hafi stúlkan flogið af baki og lent á stálgrindargerðinu með vinstri síðu. Hafi lögreglan verið kölluð á vettvang slyssins og stúlkan flutt á bráðamóttöku Landspítala í sjúkrabifreið.

Varanlegur vandi

Á bráðamóttökunni hafi komið í ljós með áverkatölvusneiðmynd stórt rof á vinstra nýra stúlkunnar með blæðingu innvortis. Í kjölfarið hafi hún verið lögð inn á gjörgæsludeild í tvo sólarhringa. Eftir það var hún lögð á barnaskurðdeild til áframhaldandi vöktunar. Stúlkan hafi legið inni á sjúkrahúsinu í tvær og hálfa viku en þurft eftir útskriftina að hafa afar hægt um sig í fjórar vikur.

Í ísótópaskannarannsókn um haustið hafi komið í ljós að stúlkan hafði tapað að minnsta kosti þriðjungi af vinstra nýra og verið með skerta nýrnastarfsemi síðan þá. Hún hafi einnig verið í meðferð hjá sjúkraþjálfara vegna stoðkerfisvanda sem rekja megi til áverka sem hún hlaut í slysinu og sömuleiðis hafi hún sótt meðferð hjá sálfræðingi sem greint hafi hana með áfallastreituröskun og kvíða.

Í dómi Landsréttar segir að unga konan hafi krafið eiganda hestsins um 13,2 milljónir í skaðabætur auk vaxta. Eigandinn krafðist hins vegar sýknu og að unga konan yrði dæmd til að greiða henni málskostnað.

Í dómnum segir að unga konan hafi haldið því fram að hún og eigandinn hafi samið um það haustið 2017, en slysið varð sumarið 2018, að hún myndi taka að sér að umhirðu hesta sem eigandinn átti gegn því að hún fengi að halda sinn eigin hest í hesthúsi eigandans. Eigandinn segir þessar fullyrðingar rangar. Hún sagði móður ungu konunnar hafa óskað eftir því að hún fengi að hafa hest sinn í húsinu en unga konan boðist í staðinn til þess að aðstoða öðru hverju við umhirðu hesta eigandans. Eigandinn segist hafa samþykkt beiðnina og þá aðeins í greiðaskyni við mæðgurnar. Fullyrðingar um að samið hafi verið um að unga konan myndi hreyfa hesta hennar séu rangar og sömuleiðis sé það ekki rétt að hún hafi skipað ungu konunni að hreyfa hestana meðal annars hestinn sem unga konan sat á daginn sem slysið varð.

Hafi ekki sannað neitt

Landsréttur segir að gegn eindreginni neitun eigandans beri unga konan sönnunarbyrðina fyrir því að ástæða þess að hún hafi setið umræddan hest þegar slysið varð sé sú að samkomulag hafi tekist um hún myndi sjá um að hreyfa hesta eigandans. Unga konan hafi hins vegar engin gögn lagt fram til stuðnings þessum fullyrðingum. Því verði að leggja til grundvallar að ástæða þess að hún hafi setið umræddan hest þegar slysið varð hafi verið sú að hún hafi þegið boð eigandans um að gera það.

Enn fremur segir í dómi Landsréttar að unga konan hafi einnig fullyrt að hesturinn hafi verið lítið sem ekkert taminn. Það hafi vitni að slysinu einnig fullyrt. Í dómnum segir hins vegar að af gögnum málsins megi ráða að umrætt vitni hafi ekkert þekkt til hestsins fyrir slysið og ekki haft neinar forsendur til að fullyrða um hvort hesturinn hafi verið taminn eða ekki.

Þar af leiðandi var dómur héraðsdóms staðfestur og unga konan fær engar bætur vegna þeirra áverka sem hún hlaut í slysinu. Málskostnaður milli kvennanna var felldur niður.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ákæran í stóra fíkniefnamálinu: Afi og amma geymdu efnin heima hjá sér og seðlabúnt voru flutt á bifreiðaverkstæði í Auðbrekku

Ákæran í stóra fíkniefnamálinu: Afi og amma geymdu efnin heima hjá sér og seðlabúnt voru flutt á bifreiðaverkstæði í Auðbrekku
Fréttir
Í gær

Hafa borið kennsl á líkin í ferðatöskunum – 34 ára gamall maður ákærður fyrir ódæðið

Hafa borið kennsl á líkin í ferðatöskunum – 34 ára gamall maður ákærður fyrir ódæðið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslendingur dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í Danmörku fyrir að kýla unnustu sína margsinnis á bílastæði

Íslendingur dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í Danmörku fyrir að kýla unnustu sína margsinnis á bílastæði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gangandi fólk kemst ekki lengur eftir gangstéttum í Norðurmýri – Bílastæðavandinn mikill

Gangandi fólk kemst ekki lengur eftir gangstéttum í Norðurmýri – Bílastæðavandinn mikill
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Líkamsleifar tveggja manna í ferðatöskum vekja óhug í Bretlandi – Scotland Yard stýrir leit að hinum grunuðu

Líkamsleifar tveggja manna í ferðatöskum vekja óhug í Bretlandi – Scotland Yard stýrir leit að hinum grunuðu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hlaut lífstíðarfangelsi fyrir ráðabrugg um að nauðga og drepa eina skærustu sjónvarpsstjörnu Breta

Hlaut lífstíðarfangelsi fyrir ráðabrugg um að nauðga og drepa eina skærustu sjónvarpsstjörnu Breta