Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss gefur eitt hrós á viku á Facebook-síði sinni og hrós vikunnar fær Óttar Ingólfsson; lífskúnstner, listamaður og einn af stjórnendum íbúasíðu Þorlákshafnar á Facebook.
„Oft hefur Óttar átt hrós skilið, svo sem eftir velheppnaða viðburði þar sem hann hefur troðið upp með tónlistina að vopni. Þessa vikuna vil ég hinsvegar hrósa honum og þeim öðrum sem stjórna íbúasíðu Þorlákshafnar á Facebook,“ segir Elliði og heldur áfram:
„Ástæðan er sú að þau hafa nú skorið upp herör gegn persónulegum rógburði, skautun, strámennsku og öðrum þeim plagsiðum sem hetjur lyklaborðsins láta of oft eftir sér. Hér í okkar samfélagi eins og víða eiga íbúasíðurnar til að verða vettvangur þeirra sem þannig ganga fram. Flestum til ama.“
Segir Elliði að í þessu samhengi sé mikilvægt að muna að það eru ekki margir í okkar fallega samfélagi sem standa að hatursfullri orðræðu. „Reyndar eru þeir örfáir en skaðinn sem þeir valda er mikill. Það er aðdáunarvert að stjórnendur síðunnar hafi nú sett reglur sem vernda almenna notendur fyrir slíku. Það er enda sanngjörn krafa að við íbúar getum notfært okkur sameiginlegan vettvang til að minna hvert annað á viðburði, ræða á málefnalegan hátt það sem hæst ber í umræðunni, benda á og rýna til gagns, hrósa og þar fram eftir götunum. Það viljum við flest gera án áreitni og illmælgi.
Innlegg eins og þessi eiga ekki erindi inn á slíkan vettvang:
„Sveitastjórninn eru ekkert nema morðingar“
„Auðvaldið heldur áfram að nauðga öllu og öllum“
„Ísland fyrir Íslendinga, við viljum ekki þessi þjóðverjagerpi hingað“Takk Óttar og þið hin sem stjórnið íbúasíðunni. Höldum áfram að reyna að gera bæinn okkar fallegri og betri.“