Í þáttunum er rætt við frambjóðendur til embættis forseta Íslands og var Katrín í þætti gærkvöldsins.
Sjá einnig: Jóhanna Vigdís fær á baukinn eftir viðtal við Höllu Hrund: „Furðulegar spurningar satt að segja“
Í staksteinum dagsins í dag kemur fram að margt misskynsamlegt hafi verið rætt um eðli forsetaembættisins á undanförnum vikum.
„Ýmsar hugmyndir um hlutverk, valdsvið og áhrifavald forseta ekki allar í samræmi við raunveruleikann. Forseti getur látið sér annt um tiltekin mál, en lítið hlutast um þau. Af sama meiði er tafs um „málskotsrétt“ forseta, sem snýst aðeins um synjun staðfestingar laga, eða stjórnarmyndunarumboð, sem oft er látið með eins og heilagt gral en hefur sáralítið gildi,“ segir höfundurinn og snýr sér svo að Forystusætinu.
„Vonir stóðu til að umræðan yrði jarðbundnari í Forystusætinu á Rúv. þar sem Sigríður Hagalín Björnsdóttir las upp spurningar fyrir Katrínu Jakobsdóttur. Hún svaraði raunar fumlaust og skynsamlega, en sumar spurningarnar þeim mun furðulegri.“
„Þannig sagði Sigríður að forseti væri „umboðsmaður almennings gagnvart framkvæmdavaldinu“, sem er hugarburður. Forseti þarf að staðfesta lög frá Alþingi, en hefur ekkert yfir framkvæmdavaldinu að segja annað en að skipa ríkisstjórn að tillögu tilvonandi forsætisráðherra.“
Þá gagnrýnir staksteinahöfundur að Sigríði hafi verið hugleikið að Katrín gæti orðið vanhæf sem forseti við myndun ríkisstjórna þar sem hún hefði starfað í hinni „vanhelgu“ stjórnmálastétt eins og það er orðað í Morgunblaðinu.
„Liggur þó vel fyrir að forseti er aldrei vanhæfur því aðrir framkvæma vald hans. Svo hún skáldaði hugtakið „siðferðislega vanhæf“ og mælti af dramatískum þunga. Áhorfendur áttu betra skilið.“