Í Morgunblaðinu í dag er stiklað á stóru um það sem fram kom á fundinum og þar kemur fram að einn fundargesta hafi spurt Katrínu út í gagnrýni sumra vinstrimanna að hún hefði svikið þá.
„Ef ég teldi að ég hefði svikið þjóðina þá væri ég ekki að gefa kost á mér í þetta embætti. Ég held að fólk hafi kynnst mér ágætlega sem stjórnmálamanni og viti ósköp vel að í stjórnmálum myndi ég alltaf gera það sem í raun og veru er gagnrýnt mest, það er að segja að leita lausna, leita málamiðlana, því að þannig virka lýðræðissamfélög.“
Katrín var spurð nánar út í það hvort hún hefði svikið vinstrimenn og þá sagði hún að vinstrimenn væru líka hluti af þjóðinni. Bætti hún við að hollusta forseta væri aðeins ein og hún væri við þjóðina. „Ég treysti mér til að sýna engum hollustu nema þjóðinni,“ sagði Katrín.
Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Prósents sem fjallað er um á forsíðu Morgunblaðsins í dag er Katrín komin í forystu í baráttunni um Bessastaði. Mælist fylgi hennar nú 22,1% en fylgi Höllu Hrundar Logadóttur mælist 19,7% og Baldurs Þórhallssonar 18,2%. Halla Tómasdóttir hefur sótt í sig veðrið að undanförnu og mælist nú með 16,2% fylgi. Jón Gnarr er svo þar á eftir með 13,4% fylgi.