fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Fréttir

Reykjanesbær léttir fjárhagslegar byrðar körfuboltans í bænum

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 19. maí 2024 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bæjarráð Reykjanesbæjar ákvað á reglulegum fundi sínum síðastliðinn fimmtudag að verða við beiðni körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur og styrkja deildina vegna rekstrarerfiðleika hennar. Ákveðið var að verða við beiðninni meðal annars á þeim forsendum að körfuknattleiksdeild hins íþróttafélagsins í bænum, Keflavíkur, hafði áður fengið styrk frá bæjaryfirvöldum.

Fram kemur í fundargerð fundar bæjarráðs að körfuknattleiksdeild Njarðvíkur verði styrkt um 5 milljónir króna og að körfuknattleiksdeild Keflavíkur hafi áður hlotið sambærilegan styrk. Sérstaklega er tekið fram í fundargerðinni að styrkurinn til Njarðvíkur sé vegna rekstrarvanda en ekki vegna tafa á framkvæmdum við nýtt íþróttahús Stapaskóla. Njarðvík hafði farið fram á styrk frá bænum í mars síðastliðnum vegna tafanna en bæjarráð hafnaði því erindi og sú höfnun er ítrekuð í fundargerð fundar ráðsins síðastliðinn fimmtudag.

Skertir tekjumöguleikar

Upphaflega stóð til að Njarðvík myndi flytja sig um set frá núverandi heimavelli sínum í nýja íþróttahúsið við Stapaskóla í upphafi yfirstandandi keppnistímabils síðastliðið haust en enn hefur ekkert orðið af því. Reiknað er þó með að nýja íþróttahúsið verði tilbúið fyrir næstu leiktíð næsta haust.

Íþróttahúsið í Njarðvík sem aldrei er kallað annað en Ljónagryfjan hefur verið heimavöllur Njarðvíkinga síðustu tæpu hálfa öld. Ljónagryfjan þykir barn síns tíma, húsið er lítið en nýja húsið við Stapaskóla verður talsvert stærra.

Það hefur ekki verið hægt með góðu móti að koma mikið meira en 500 áhorfendum fyrir í Ljónagryfjunni en í Stapaskóla verður rými fyrir 1.100 áhorfendur. Sú staðreynd gefur Njarðvík möguleika á meiri tekjum af miðasölu, sérstaklega í úrslitakeppni úrvalsdeilda karla og kvenna í körfubolta sem iðulega er leikin fyrir svo fullri Ljónagryfju að færri komast að en vilja. Þar sem ekkert hefur orðið af þessum auknu tekjumöguleikum fór körfuknattleiksdeild Njarðvíkur fram á styrk frá bænum vegna tafanna en eins og áður segir var því erindi hafnað.

Bent  hefur verið á að heimavöllur Keflavíkur, Blue-höllin, geti tekið við yfir 1.000 áhorfendum og því hafi Njarðvíkingar ekki haft sömu tekjumöguleika og nágrannar sínir þegar kemur að miðasölu, sérstaklega í úrslitakeppninni. Stærri heimavöllur kom þó ekki í veg fyrir að körfuknattleiksdeild Keflavíkur þyrfti að leita til Reykjanesbæjar.

Nánari upplýsingar koma ekki fram

Fyrr í vikunni höfðu forsvarsmenn Njarðvíkur komið á fund íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar og farið fram á styrk til körfuknattleiksdeildarinnar en erindinu var vísað til bæjarráðs sem varð síðan við því.

Í fundargerð fundar íþrótta- og tómstundaráðs kemur fram að Hámundur Örn Helgason framkvæmda- og íþróttastjóri félagsins og Ágústa Guðmarsdóttir fjármálastjóri þess hafi mætt  til fundar ráðsins og fylgt úr hlaði erindi körfuknattleiksdeildarinnar.

Segir í fundargerðinni að þau hafi gert grein fyrir fjárhagsstöðu körfuknattleiksdeildarinnar sem sé afar erfið og hafi aðalstjórn félagsins þurft að lána deildinni fé á undanförnum mánuðum.

Rekstrarvanda körfuknattleiksdeildarinnar er ekki lýst nánar í fundargerðinni.

Það hefur verið vel þekkt að rekstur íþróttafélaga á Íslandi, með einhverjum undantekningum, er almennt erfiður og oft í járnum. Meðal helstu útgjaldaliða þeirra eru laun til leikmanna og þjálfara meistaraflokka. Eins og önnur félög í úrvalsdeildinni í körfubolta er Njarðvík með nokkra leikmenn, einkum erlenda, sem hafa körfuboltann að atvinnu og þjálfarar meistaraflokkanna þiggja án efa laun fyrir sín störf. Ekki kemur fram í áðurnefndum fundargerðum hvort rekstrarvandi körfuknattleiksdeild Njarðvíkur hafi falist einkum í erfiðleikum við að greiða laun.

Of lág laun?

Benedikt Guðmundsson þjálfari meistaraflokks karla hjá Njarðvík staðfesti eftir að liðið var úr leik í úrslitakeppninni að hann væri hættur störfum hjá félaginu. Benedikt sagði í viðtali við Vísi að þriggja ára samningur hans við félagið væri að renna út. Rætt hafi verið um nýjan samning í janúar en hann og félagið hefðu ekki náð saman.

Þótt það komi ekki beinlínis fram í máli Benedikts verður að teljast líklegt að þar eigi hann ekki síst við launalið samningsins. Hafi Njarðvík ekki getað boðið honum nógu há laun, að hans mati, væri það væntanlega ein birtingarmynd rekstrarvanda en ítreka ber að þegar ekki eru nákvæmari upplýsingar til staðar er aðeins hægt að leiða líkum að því.

Rúnar Ingi Erlingsson núverandi þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur er sagður munu taka við karlaliðinu eftir að yfirstandandi leiktíð kvennaliðsins lýkur en það keppir nú til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn við nágrannana og erkifjendurna í Keflavík. Talið er líklegt að Einar Árni Jóhannsson, sem verið hefur aðstoðarþjálfari hjá Hetti á Egilsstöðum síðustu ár, muni snúa aftur á heimaslóðir sínar í Njarðvík og taka við kvennaliðinu.

Hvort það sé liður í sparnaði körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur að ráða heimamennina Rúnar og Einar til að þjálfa meistaraflokkana á lægri launum en aðkomumenn væru tilbúnir að sætta sig við skal ósagt látið þar sem eingöngu er hægt að geta sér til um það á meðan nánari upplýsingar liggja ekki fyrir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Grindavíkurbær vildi ekki kaupa Sturlu sem hefur verið fluttur um set

Grindavíkurbær vildi ekki kaupa Sturlu sem hefur verið fluttur um set
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Páll ekki hrifinn af „derringi“ Halldórs Benjamíns – Myndi ekki henta sem formaður Sjálfstæðisflokksins

Páll ekki hrifinn af „derringi“ Halldórs Benjamíns – Myndi ekki henta sem formaður Sjálfstæðisflokksins
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Jóhannes baunar á Kristrúnu – „Veruleg vonbrigði að sjá forsætisráðherra landsins fara með þetta fleipur á alþjóðavettvangi“

Jóhannes baunar á Kristrúnu – „Veruleg vonbrigði að sjá forsætisráðherra landsins fara með þetta fleipur á alþjóðavettvangi“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Þetta gætu afleiðingarnar orðið ef gýs í Bárðarbungu

Þetta gætu afleiðingarnar orðið ef gýs í Bárðarbungu
Fréttir
Í gær

„Gríðarmikil“ og óvenjuleg skjálftahrina hafin í Bárðarbungu – Minnir á kvikuinnskot

„Gríðarmikil“ og óvenjuleg skjálftahrina hafin í Bárðarbungu – Minnir á kvikuinnskot
Fréttir
Í gær

„Við erum ekki í stríði – en það er heldur ekki friður“ segir forsætisráðherra Svíþjóðar

„Við erum ekki í stríði – en það er heldur ekki friður“ segir forsætisráðherra Svíþjóðar
Fréttir
Í gær

„Örvænting framkvæmdastjórans er orðin ansi mikil – og þá getur það gerst að menn fari að segja ósatt“

„Örvænting framkvæmdastjórans er orðin ansi mikil – og þá getur það gerst að menn fari að segja ósatt“
Fréttir
Í gær

Sveitarfélög brutu á eldri borgurum

Sveitarfélög brutu á eldri borgurum