Birst hafa á samfélagsmiðlum myndir af fjölda brotinna sæta í áhorfendastúku í N1-höllinni á Hlíðarenda í Reykjavík, heimavelli Vals. Er fullyrt að myndirnar séu teknar á svæði sem stuðningsmenn Njarðvíkur sátu á þegar oddaleikur liðanna í undanúrslitum Subway-deildar karla í körfuknattleik fór fram í gærkvöldi. Njarðvík leiddi leikinn lengi vel en Valur seig fram úr undir lokin og vann nauman sigur og keppir því til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn við Grindavík en keppnistímabili Njarðvíkinga er lokið. Svali Björgvinsson formaður körfuknattleiksdeildar Vals tekur málinu með ró og segir að félögin muni leysa úr því í sameiningu en körfuknattleiksdeild Njarðvíkur hefur beðið Val afsökunar.
Af myndunum að dæma virðist að minnsta kosti á annan tug sæta hafa verið brotin en sætin í áhorfendastúku N1-hallarinnar eru úr plasti. Svali segir að Halldór Karlsson formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur hafi hringt í sig og beðist afsökunar. Þeir hafi sammælst um að félögin myndu skoða málið í sameiningu og leysa úr því. Svali segir Njarðvíkinga hafa brugðist við með sóma:
„Stórmannlega gert hjá Njarðvík að hafa samband við finnum bara lausnir á þessu sem eru öllum til sóma.“
Samkvæmt heimildum DV voru einhver sæti á þessu svæði í stúkunni brotin þegar stuðningsmenn liðanna mættu í höllina í gærkvöldi og því ekki verið skemmd eftir leikinn. Svali segir það rétt að einhver sætanna hafi verið brotin fyrir en ljóst sé að talsvert af sætum hafi brotnað í gærkvöldi. Hann vill ekki endilega segja að um skemmdarverk hafi verið að ræða en ítrekar að félögin muni leysa úr málinu í sameiningu:
„Af bróðerni og með sátt í huga,“ segir Svali.
Aðspurður hvort rætt verði um hugsanlegar bótagreiðslur frá Njarðvík segir Svali að málið verði bara skoðað og því verði ekki lokið í dag eða á morgun:
„Auðvitað vilja allir bæði við og Njarðvík að leikir fari vel fram. Stórmannlega gert hjá þeim að hringja að fyrra bragði og vilja leysa þetta með okkur.“
Aðspurður hvort nokkuð þessu líkt hafi gerst áður á Hlíðarenda á stuðningsmannasvæði gestaliða segir Svali svo vera en ekki í jafn miklum mæli og í gærkvöldi:
„Plast getur brotnað og það hafa brotnað sæti áður en þetta var í meira mæli en eðlilegt þykir á eðlilegum kappleik.“
Aðspurður hvort það blasi þá ekki við að sætin hafi í einhverjum tilfellum verið brotin viljandi svarar Svali:
„Íþróttir kalla fram tilfinningar í fólki og þá hefur það gerst í íþróttum að sætin fá að kenna á því.“
Ekki virðist þó annað, miðað við orð Svala, en að Valsmenn taki þessu með stóískri ró:
„Þetta er ekkert sem við missum svefn yfir, “ segir Svali að lokum og ítrekar enn á ný að Njarðvíkingar hafi haft samband að fyrra bragði og félögin muni leysa úr málinu í sameiningu.
Halldór Karlsson formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur vildi lítið tjá sig um málið þegar fréttamaður DV hafði samband við hann og sagði að félagið myndi senda frá sér tilkynningu vegna málsins en tilkynningin var birt á Facebooksíðu deildarinnar fyrir nokkrum mínútum. Hún er svohljóðandi:
„Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur vill koma á framfæri afsökunarbeiðni til Valsmanna en í gær urðu skemmdir á sætum í Valsheimilinu á áhorfendapöllum þar sem Njarðvíkingar hvöttu liðið sitt áfram. Við erum í góðu sambandi við Valsmenn en ljóst er að skemmdir voru fyrir á stúku áður en leikur hófst í gær. Einhverjar bættust við á oddaleiknum og harmar stjórn Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur skemmdarverkin. Við munum áfram vinna málið með Val og þökkum þeim fyrir góða seríu og um leið óska þeim velfarnaðar í úrslitaeinvíginu.“
Undir tilkynninguna ritar stjórn deildarinnar.