fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fréttir

Eiginmaður Birnu afplánar 10 ára dóm – „Sú sorg er bara eins og þegar einhver deyr“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 14. maí 2024 17:42

Mynd: Skjáskot YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það hjálpar manni mest að þetta er ekki leyndarmál í mínu lífi. Það er ekkert leyndarmál að ég eigi mann í fangelsi. Auðvitað upplifði ég rosa skömm og geri það enn í dag. En leyndarmál skal þetta aldrei verða. Ég vil meina að börnin mín hafi ekki orðið fyrir miklu aðkasti og einelti af því það er ekki hægt að stríða þeim af því þetta er ekki leyndarmál, það gerir hlutina miklu verri. Svo eru foreldrar ljótir og segja börnunum sínum, sem koma í skólann og stríða, en í mínu tilfelli hefur það ekki verið,“

segir Birna Ólafsdóttir sem er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni. Eiginmaður Birnu hlaut tíu ára fangelsisdóm í fyrra fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og skipulagða brotastarfsemi. Aðrir hlutu mislanga dóma í sama máli.

Birna segir fanga hafa fáa eða enga möguleika á að betra sig í núverandi kerfi. Hún segir fangelsisdóma jafnframt bitna alltof illa á fjölskyldum fanga, ekki síst saklausum börnum þeirra sem verða fyrir miklum neikvæðum áhrifum af því að þurfa heimsækja foreldri í ómannúðlegt umhverfi fangelsanna.

„Þegar hann var á Hrauninu var þetta náttúrlega miklu miklu erfiðara. Manni líður eins og maður sé að afplána og það er erfitt að koma sem aðstandandi í fangelsi, við förum í gegnum öryggiseftirlit, þú mátt ekki vera með úrið þitt, sem betur eru ótrúlega flottir og dásamlegir fangaverðir á hrauninu en það leynast í öllum starfsstéttum líka óþverrar. Það er fólk sem sækir í þessar stöður, eins og fangaverðir, securitas, lögreglumenn, fólk sem er með valdníðslufíkn,“ segir Birna. Segir hún að komið hafi verið illa fram við hana og hún upplifað og fundið fyrir því að litið sé niður á hana og henni látið líða illa.

„Það er engin betrun það er bara staðan, það er ekkert að gera fyrir þá, þetta er bara kjötgeymsla. Sumir geta fengið að vinna í þvottahúsinu, sjoppunni og svona, en það er ekki vinna fyrir alla, svo vantar Fangelsismálastofnun meira fjármagn til að geta uppfyllt þarfir fanga,“ segir Birna. Segir hún fanga ekki fá áfallahjálp, næga sálfræðiþjónustu og minnist hún á nýlegt andlát í fangelsinu á Hólmsheiði. „Maður tekur það virkilega nærri sér, maður hefur sjálfur verið hræddur um sinn fanga. Presturinn kemur í korter til fangana sem voru á deild með honum, fangarnir fengu ekki áfallahjálp, en fangaverðirnir fengu áfallahjálp. Fangarnir voru meiri vinir hans en fangaverðirnir. Dvölin er ekki uppbyggileg, hún er ekki góð. Ef ég væri fangi þá myndi ég ekki vilja fá heimsókn. Fyrir hverja heimsókn var hann látinn strippa og grandskoðaður. Að láta klæða sig úr fyrir einhverjum mönnum þrisvar í viku er bara niðurbrot. Ég held að rosa margir myndu bara vilja setja þá [fanga] þarna inn og láta þá drepast þarna, það er nú bara staðreynd, maður upplifir það og sér það í kommentakerfum og öðru,“ segir Birna

„Það er ljótt að segja svona en ég hef hugsað að ef háttsettir stjórnmálamenn, þeir sem ráða ríkjum og geta sett lög og reglur, það væri langbest ef þeir myndu eignast ástvin í fangelsi þá myndi kannski eitthvað gerast almennilega.“

Vill að fangar fái fjölskylduleyfi

Birna segist hafa fengið að tala fyrst við manninn sinn eftir nokkrar vikur eftir að hann var handtekinn. „Sú sorg er bara eins og þegar einhver deyr. Það á bara að banna þetta,“ segir Birna og tárast.

Birna segir að það myndi muna miklu ef maður hennar gæti fengið fjölskylduleyfi, aðstoðað hana heima og með börnin. „Fengið að vera með börnunum sínum, sofa með þeim og gefa þeim ást og umhyggju.“

Segir hún að hún hafi skoðað Memories á Facebook fyrir stuttu og áttað sig á hvað synir þeirra hafa elst síðustu tvö ár og hverju maður hennar hefur misst af. Segir hún að það væri yndislegt fyrir börnin ef maður hennar mætti mæta sem dæmi í afmælisveislur barnanna. „Börn sem eiga feður eða mæður í fangelsi eru líklegri til að lenda í fangelsi. Í draumaheimi myndi ég óska þess að ég færi aldrei með börnin mín í fangelsi, heldur að hann kæmi bara í heimsókn. Það er fullt af börnum sem eiga helgarpabba. Ef hann fengi að koma þó ekki nema eina helgi í mánuði.“

Birna segist áður ekki hafa haft mikla samkennd með börnum fanga. „Það var bara af því ég vissi ekki betur. Ef þú átt ekki ástvini í fangelsi þá veistu ekki hvað er að eiga ástvini í fangelsi. Allir þessir fangar á Íslandi koma aftur út þannig að er ekki betra að við fáum þá sem betri og jákvæðari menn út en reiða?“

Missti fleira en eiginmanninn

Segir hún marga fanga hæfa til að vera heima hjá sér með ökklaband, slíkt væri ódýrara fyrir samfélagið. Segir hún fleira hafa verið í boði fyrir fanga þegar Margrét Frímannsdóttir var fangelsisstjóri á Litla-Hrauni. Segir hún alla fanga tala fallega um Margréti. „Hún var einstaklega góð við þá. Þeir þurfa ást og umhyggju.“

Birna segir dóm líkt og maður hennar hlaut of háan samanborið við dóma í kynferðisbrotamálum. „Svo kemur maður og misnotar lítið barn og eyðileggur sálina og barnið er alla sína ævi ónýtt. Og hann fær þrjú ár eða skilorðsbundið, þetta meikar ekki sens fyrir mér. Svo eru dómar á Íslandi bara grín.“

Birna segist ekki hafa fengið vinnu „af því ég á mann sem er glæpamaður. HHÍ leyfði mér ekki að hafa spilakassa á barnum sem ég átti. Ég sé ekki hvort það sé betra að hagnast á fíkniefnum eða spilafíkn, ég sé ekki þar mun.“ Birna segir að HHÍ hafi dregið leyfið fyrir spilakassann tilbaka eftir að maðurinn hennar hlaut dóm. „Ég missti manninn minn, ég missti líka tekjur, ég missti barinn minn sem mér þótti ótrúlega vænt um og vann á. Maður missir rosalega mikið.“

Beðin um að rifja upp daginn sem maður hennar var handtekinn segir Birna: „Lögreglan var allt í einu mætt heim til mín. Það kom yndislegur lögreglumaður og lögreglukona sem ég ber ekki söguna eins vel og honum. Þá koma tveir lögreglumenn og ég tel annan þeirra bara veikan mann og öskrar á mig: „Þú ert handtekin, þú ert handtekin,“ segir Birna sem segist hafa setið í bíl sínum á N1. Segir Birna að vinir hennar hafi verið byrjaðir að hringja í hana þar sem komnar voru fréttir af málinu. Segir Birna umræddan lögreglumann hafa brotið hana niður, „hann var að brjóta mig niður þessi lögreglumaður, segja að ég vissi þetta allt, af því ég átti bar og hann [lögreglumaðurinn] kom stundum á barinn að drekka, að ég hefði reynt að eitra fyrir þeim af því ég gaf þeim snafs einhvern tíma og þá var ég nú ekki kærasta Gústa. Ég var traumatised eftir hann [lögreglumanninn] mjög lengi.“

Segir hún lögreglumanninn og annan til hafa verið vonda við sig, „aðrir voru bara yndislegir og reyndu allt sem þeir gátu til að vera blíðir og góðir. Þannig að meirihluti lögreglumanna eru yndislegir. Páll Winkel hefur reynst mér rosa vel, hann hefur svarað öllum símtölum mínum og ég finn fyrir raunverulegri samkennd frá honum. Það er alltaf talað um peningaleysi en þegar upp er staðið ræður Páll engu, heldur Dómsmálaráðuneytið. Jón var dásamlegur við mig, hann svaraði mér og hringi í mig. Fyrir mér er hann með hjarta úr gulli,“ segir Birna og á þar við Jón Gunnarsson fyrrum dómsmálaráðherra. Segir hún Guðrúnu Hafsteinsdóttur núverandi dómsmálaráðherra þurfa að gera betur. „Það er ekkert verið að hugsa um fangana.“

„Ég myndi biðja hana um að breyta lögum og breyta því að allir fangar fái fjölskylduleyfi,“ segir Birna aðspurð um hvaða tvær óskir hún vilji fá uppfylltar. Segir hún slíkt leyfi myndu breyta öllu fyrir fjölskyldu hennar.

Hægt er að horfa á viðtalið í fullri lengd á Brotkast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Íslendingur fannst látinn á Spáni

Íslendingur fannst látinn á Spáni
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins styður ekki Coda Terminal verkefnið við Vellina – Þyrfti aðkomu minnihlutans til að koma málinu í gegn

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins styður ekki Coda Terminal verkefnið við Vellina – Þyrfti aðkomu minnihlutans til að koma málinu í gegn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gangandi fólk kemst ekki lengur eftir gangstéttum í Norðurmýri – Bílastæðavandinn mikill

Gangandi fólk kemst ekki lengur eftir gangstéttum í Norðurmýri – Bílastæðavandinn mikill
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikur í hitabylgju – Gleymdi tveggja ára dóttur sinni úti í bíl með hræðilegum afleiðingum

Harmleikur í hitabylgju – Gleymdi tveggja ára dóttur sinni úti í bíl með hræðilegum afleiðingum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hlaut lífstíðarfangelsi fyrir ráðabrugg um að nauðga og drepa eina skærustu sjónvarpsstjörnu Breta

Hlaut lífstíðarfangelsi fyrir ráðabrugg um að nauðga og drepa eina skærustu sjónvarpsstjörnu Breta
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Ingi segir verið að hafa almenning að fíflum

Guðmundur Ingi segir verið að hafa almenning að fíflum