fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fréttir

Dúxaði í Verzló en er nú á svörtum lista Vesturlanda – Fannst íslenskir unglingar drekka of mikið

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 14. maí 2024 20:00

Evguenia er nú framkvæmdastjóri AKOM er á lista yfir fyrirtæki sem lúta refsiþvingunum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona með sem dúxaði í Verzlunarskólanum fyrir tæpum þrjátíu árum og er með íslenskan ríkisborgararétt er komin á refsiaðgerðalista vegna stríðsins í Úkraínu. Rekur hún og fjölskylda hennar rafgeymaverksmiðju í Rússlandi.

Konan heitir Evguenia Ignatieva, 45 ára, og er rússnesk að uppruna. Hún fékk ríkisborgararétt á Íslandi vorið 1997 ásamt foreldrum sínum, Nikolai og Liliu og eldri systur sinni Olgu.

Fjölskyldan var búsett hér um árabil en rekur nú rafgeymaverksmiðjuna AKOM í borginni Zhigulevsk í suðurhluta Rússlands.

Í viðtali hjá DV

Evguenia var í viðtali við DV í júní árið 1996. En þá hafði hún dúxað bæði í íslensku og í stærðfræði í Verzlunarskóla Íslands og var með hæstu meðaleinkunina, 9,44. Fékk hún 10 í sjö fögum og 9,5 í þremur. Lægsta einkunnin var 7,5 í ensku.

„Ég held að ástæðan fyrir því að mér hafi gengið svona vel að læra íslensku sé hversu ung ég var þegar ég fluttist hingað en ég var þrettán ára gömul. Mér fannst tungumálið alls ekki erfitt. Mér gekk alltaf mjög vel í skólanum í Rússlandi og var alltaf hæst í mínum bekk,“ sagði Evguenia í viðtalinu.

Einnig að námið í Rússlandi hefði verið miklu erfiðara en hér á Íslandi. Þá sagði hún að það væri ekkert sérstaklega gaman að vera unglingur á Íslandi því íslenskir  unglingar drykkju svo mikið áfengi. Aðspurð um framtíðina sagðist Evguenia vera að hugsa um að fara í viðskiptafræði í háskóla eða að gerast blaðakona.

Bjuggu á Íslandi í 25 ár

Fjölskyldan flutti til Íslands árið 1991 frá borginni Togliatti við bakka Volgu en Nikolai var sendur hingað sem tengiliður bílaframleiðandans Lada. Var hann jafn framt framkvæmdastjóri Bifreiða og landbúnaðarvéla á Íslandi.

Einnig var rætt við Nikolai í viðtali DV. Hann sagðist ánægður með þróunina í Rússlandi eftir fall kommúnismans.

„Það er mjög erfitt að bera saman líf okkar í Rússlandi og líf okkar hér á Íslandi,“ sagði Nikolai. „Þegar við bjuggum í Rússlandi voru kommúnistar við völd og allt var skammtað og enginn varð ríkur. Núna ætti að vera auðveldara að hagnast og lifa sómasamlegu lífi í Rússlandi þegar kommúnistar ráða ekki lengur. Nú er allt undir manneskjunni sjálfri komið.“

Sagði hann erfitt að svara því hvort að fjölskyldan myndi ílengjast hér á Íslandi, en honum fannst loftslagið gott og fólkið viðkunnanlegt. Fjölskyldan var búsett við Grænumýri á Seltjarnarnesi.

„Við erum ástfangin af Íslandi,“ sagði Lilia Igniateva. „Það er afar fallegt land á öllum árstíðum og í hvaða veðri sem er. Við höfum ferðast talsvert um landið og að mínu mati er svæðið í kringum Mývatn fallegast.“

Refsiaðgerðir vesturveldanna

AKOM var stofnað árið 2001 en fjölskyldan var samt áfram búsett á Íslandi. Samanlagt bjuggu þau hér í 25 ár. Eftir að fjölskyldan flutti alfarið til Rússlands, áttu þau áfram sumarbústað á Íslandi og komu hingað reglulega.

Nikolai lést sumarið 2020 og er nú verksmiðjan nefnd eftir honum, en þar störfuðu um 500 manns árið 2015. Lilia tók við sem forstjóri AKOM samsteypunnar eftir dauða Nikolai og Evguenia sem framkvæmdastjóri.

AKOM var þann 12. desember síðastliðinn sett á lista yfir fyrirtæki sem sæta refsiaðgerðum af hálfum bandarískra og evrópskra stjórnvalda. Er það talið vera eitt af þeim fyrirtækjum sem styður við hernað Rússa í Úkraínu. Það er með því að framleiða rafgeyma fyrir bæði bíla og trukka.

Í fréttatilkynningu AKOM frá því í júní síðastliðnum kemur fram að rússnesk yfirvöld styðji við fyrirtækið við að fá ýmsar ívilnanir og að því sé boðin þátttaka í ýmsum verkefnum af hálfu hins opinbera. Ekki er hernaður þó nefndur beinum orðum í þeirri frétt.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ákæran í stóra fíkniefnamálinu: Afi og amma geymdu efnin heima hjá sér og seðlabúnt voru flutt á bifreiðaverkstæði í Auðbrekku

Ákæran í stóra fíkniefnamálinu: Afi og amma geymdu efnin heima hjá sér og seðlabúnt voru flutt á bifreiðaverkstæði í Auðbrekku
Fréttir
Í gær

Hafa borið kennsl á líkin í ferðatöskunum – 34 ára gamall maður ákærður fyrir ódæðið

Hafa borið kennsl á líkin í ferðatöskunum – 34 ára gamall maður ákærður fyrir ódæðið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslendingur dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í Danmörku fyrir að kýla unnustu sína margsinnis á bílastæði

Íslendingur dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í Danmörku fyrir að kýla unnustu sína margsinnis á bílastæði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gangandi fólk kemst ekki lengur eftir gangstéttum í Norðurmýri – Bílastæðavandinn mikill

Gangandi fólk kemst ekki lengur eftir gangstéttum í Norðurmýri – Bílastæðavandinn mikill
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Líkamsleifar tveggja manna í ferðatöskum vekja óhug í Bretlandi – Scotland Yard stýrir leit að hinum grunuðu

Líkamsleifar tveggja manna í ferðatöskum vekja óhug í Bretlandi – Scotland Yard stýrir leit að hinum grunuðu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hlaut lífstíðarfangelsi fyrir ráðabrugg um að nauðga og drepa eina skærustu sjónvarpsstjörnu Breta

Hlaut lífstíðarfangelsi fyrir ráðabrugg um að nauðga og drepa eina skærustu sjónvarpsstjörnu Breta