„Ég skil ekki þessa þjóð, þess vegna væri ég ekki gott sameiningartákn og það var rétt og heiðarlegt af mér að gefa ekki kost á mér í forsetaembættið í ár. Mér finnst líka gaman að vera ekki forseti og þetta embætti er líka hlægilegt fyrir stórbrotinn mann eins og mig,“ segir hann í pistlinum og heldur áfram:
„Ég er prins og flestum prinsum fyndist kjánalegt að taka þátt í svona atvinnuviðtölum í fegurðarsamkeppnisstíl. Mér finnst forsetaframbjóðendurnir í ár margir hverjir góðir kandídatar í því sem þeir eru að gera í lífinu og vil engum það að þurfa að vera í starfi forseta.“
Snorri segir að Vigdís Finnbogadóttir hafi eitt sinn hvíslað því að honum þegar hann var í framboði fyrir 20 árum að það væri ekkert sérstaklega skemmtilegt starf að vera forseti.
„En ég sé þó nokkra af þeim sem eru í framboði nú alveg fyrir mér sem glæsilega forseta. Mér fannst skemmtilegra að vera fjallkona en forsetaframbjóðandi og þótt ég yrði frábær forseti er ég betri píanóleikari og miklu betri kokkur,“ segir hann og endar grein sína á að óska þeim frambjóðendum velfarnaðar sem eru í framboði til forseta Íslands að þessu sinni.
Snorri var í viðtali í Lestinni á Rás 1 á dögunum og þar sagði Snorri að hann hefði fengið margar áskoranir um að bjóða sig fram.
„Margir eru í fýlu yfir að ég sé ekki að fara fram. En svo er nokkuð sem fólk gleymir, eða kemur á óvart, og það er að það eru tuttugu ár síðan ég var framboði,“ sagði Snorri sem var opinber forsetaframbjóðandi fyrir kosningarnar 2004. Hann dró framboð sitt til baka áður en kom að því að skila inn meðmælalista. Þó hann hafi ekki farið aftur í forsetaframboð hefur hann í tvígang boðið sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins en ekki haft erindi sem erfiði.