Zak og Elliot komu til Íslands þann 21. apríl síðastliðinn og hugðust dvelja hér í nokkra daga. Ógæfan dundi hins vegar yfir strax á fyrsta degi þegar þeir lentu í hörðum árekstri við annan bíl. Báðir slösuðust töluvert en Elliot hlaut öllu alvarlegri meiðsli og þurfti að gangast undir aðgerð vegna innvortis blæðinga.
Zak hefur leyft fylgjendum sínum á TikTok að fylgjast með gangi mála og hafa myndbönd hans vakið talsverða athygli. Elliot dvaldi á Landspítalanum í nokkrar vikur eftir slysið en í frétt BBC í morgun kemur fram að hann hafi nú verið fluttur með sjúkraflugi til Bretlands þar sem bataferlið heldur áfram.
Sjá einnig: Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi:Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala
Greint var frá því á dögunum að þeir hefðu trúlofað sig á Landspítalanum þegar þeir hittust fyrst eftir slysið og stefna þeir að því að ganga í það heilaga á næsta ári, samkvæmt viðtali við Zak á vef BBC.
„Við erum ekki búnir að ákveða dag fyrir brúðkaupið enda mun það fara eftir því hvernig bataferlið gengur,“ segir Zak sem er 28 ára rútubílstjóri frá Norwich á Englandi.
Í umfjöllun BBC kemur fram að Elliot hafi fengið stóma eftir slysið sem er til marks um þá alvarlegu áverka sem hann hlaut.
Í einu myndbandi á TikTok tjáði Zak sig um Landspítalann og íslenskt heilbrigðisstarfsfólk og er óhætt að segja að hann hafi talað vel um spítalann.
Sjá einnig: Eftir hörmulegt slys á Íslandi hefur hann þetta að segja um Landspítalann og starfsfólk hans
„Spítalinn hér er frábær, starfsfólkið er frábært,“ sagði hann og bætti við að starfsfólkið væri afar umhyggjusamt í garð skjólstæðinga sína.
„Þau gefa sér tíma fyrir þig, það er hljótt hérna, það er hreint. Þetta er fullkomið og gerir nákvæmlega það sem það á að gera. Þetta er líklega besti staðurinn í heiminum til að lenda í svona slysi.“