Húseigandi í Grindavík segist vera við það að bugast vegna seinagangs og tafa við afgreiðslu á umsókn um kaup Fasteignafélagsins Þórkötlu á húsinu. Segist húseigandinn hafa sótt um fyrsta daginn sem opnað hafi verið fyrir umsóknir, 8. mars síðastliðinn, fengið samþykki en síðan hafi engin frekari svör borist um framhaldið. Húseigandinn segist þar af leiðandi standa frammi fyrir því að verða húsnæðislaus ásamt manni sínum, þremur börnum og hundi fjölskyldunnar um næstu mánaðamót þegar leigusamningur vegna leiguhúsnæðis sem fjölskyldan býr nú í rennur út.
Þórkatla sem er í eigu ríkisins tók til starfa í febrúar síðastliðnum til að sjá um kaup á húsum og íbúðum þeirra eigenda íbúðarhúsnæðis í Grindavík sem hafa kosið að selja ríkinu fasteignir sínar vegna áhrifa jarðhræringa undanfarinna missera á bæinn og innviði hans. Félagið tilkynnti fyrir nokkrum dögum að 766 umsóknir hefðu borist og að 528 þeirra hefðu verið samþykktar og að 55 prósent allra umsækjenda hefði verið boðinn kaupsamningur til undirritunar og fyrir lægju 380 þinglýstir kaupsamningar að kaupverði um 30 milljarða króna. Tekið var fram að enn sé unnið í frávikaumsóknum sem borist hafi í mars. Þær snúi meðal annars að breytingum á fermetrafjölda, frávikum frá lögheimili í eigninni, húsum í byggingu, altjónshúsum og dánarbúum.
Elísa Haukdal, húseigandi í Grindavík, bendir hins vegar á að samþykki eitt og sér segi ekki mikið.
Hún segir að hún og maður hennar hafi sótt um 8. mars síðastliðinn, fyrsta daginn sem opnað var fyrir umsóknir. Elísa hefur tjáð DV að borist hafi svör frá Þórkötlu um að umsóknin væri samþykkt en að frekari svör um framhaldið hafi ekki borist. Þau standa því uppi með samþykkta umsókn en án svara um hvenær vænta megi að hægt verði að undirrita kaupsamning og fá kaupverðið greitt.
Elísa segir að Þórkatla hafi veitt þau svör að unnið yrði úr umsóknum eftir dagsetningum, þ.e.a.s. að unnið yrði úr umsóknum í þeirri röð sem þær berist. Þrátt fyrir það bíði hún og maður hennar enn frekari svara um framhaldið nú meira en tveimur mánuðum eftir að umsóknin var lögð fram. Þau hafi sent Þórkötlu fjölda tölvupósta en fengið takmörkuð svör um framhaldið ef póstunum hafi þá verið svarað yfirleitt.
Elísa segir þennan skort á svörum frá Þórkötlu setja fjölskylduna í afar erfiða stöðu en hún og maður hennar eiga þrjú börn og einn hund.
Hún segir leigusamning vegna leiguhúsnæðis sem fjölskyldan búi nú í renni út 1. júní næstkomandi og eins og staðan sé núna sjái hún ekki fram á annað en að fjölskyldan þurfi að flytja í 15 fermetra kofa úti í sveit, sem hún eigi, ef máli þeirra lýkur ekki hjá Þórkötlu fyrir þann tíma. Hún segir að í kofanum sé hvorki rennandi vatn né klósett en fjölskyldan hafi búið í kofanum fyrstu fimm dagana eftir að Grindavík var fyrst rýmd 10. nóvember síðastliðinn og kuldinn hafi verið afar mikill.
Óvissan sem fjölskyldan stendur frammi fyrir á meðan engin svör hafa borist frá Þórkötlu um hvenær gengið verður frá kaupum á fasteign þeirra í Grindavík er því mikil og Elísa fer ekki í grafgötur með það að þessi staða hefur reynt mikið á fjölskylduna. Ástandið sé farið að taka sinn toll af heilsu þeirra. Þar að auki séu foreldrar hennar í sömu stöðu:
„Þetta er algjörlega óboðlegt og við erum gjörsamlega búin á því andlega, jú og líkamlega líka eftir endalausa flutninga. Foreldrar mínir missa leiguíbúðina sína líka 1. júní og þau sjá fyrir sér að þurfa að búa í bílnum. Þau eru komin á efri ár og geta þetta ekki. Pabbi minn er mikill sjúklingur og heilsunni hans hrakar stöðugt. Þau sóttu um sín uppkaup 9. mars og hafa ekkert heyrt heldur.“
Elísa segist hafa vitneskju um að þó nokkur fjöldi eigenda íbúðarhúsnæðis í Grindavík sem sótt hafi um, í lok mars, 2-3 vikum síðar en hún og maður hennar, að Þórkatla keypti eignir þeirra hafi gengið frá sölunni og fengið kaupverðið greitt. Í því ljósi séu þau hjónin þeim mun ósáttari við meðferð Þórkötlu á máli þeirra. Þau séu einfaldlega við það að bugast og verði því að fá úrlausn sinna mála sem allra fyrst:
„Við erum buguð og brotin og getum ekki meira.“
Ljóst er að Elísa er ekki eini umsækjandinn sem hefur kvartað vegna tafa við vinnslu umsókna hjá Þórkötlu og skorts á svörum frá félaginu. DV hefur sent ítarlegar fyrirspurn til Þórkötlu og mun greina frá svörum félagsins þegar og ef þau berast.