fbpx
Laugardagur 18.janúar 2025
Fréttir

Auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi

Ritstjórn DV
Föstudaginn 10. maí 2024 16:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér nýja tilkynningu þar sem fram kemur að auknar líkur séu á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi á Reykjanesskaga næstu daga en eldgosinu sem hófst í mars er nýlokið. Líklegast sé að gjósi á Sundhnúksgígaröðinni og að fyrirvari gæti orðið mjög stuttur.

Í tilkynningunni segir eftirfarandi:

„Lítil breyting hefur orðið á landrisinu eftir að eldgosinu lauk. Kvikusöfnun heldur áfram á sama hraða og áður. Í dag má gera ráð fyrir að um tæpir 14 milljónir rúmmetra af kviku hafi bæst við í kvikuhólfið frá því að eldgosið hófst 16. mars.“

„Í fyrri kvikuhlaupum og eldgosum hafa um 8 til 13 milljónir rúmmetra bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi milli atburða áður en kvikan hleypur úr kvikuhólfinu yfir í Sundhnúksgígaröðina. Nú er magn kviku sem bæst hefur við komið upp fyrir efri mörkin, en reynslan frá Kröflueldum sýnir að eftir því sem kvikuhlaupum fjölgar þarf meiri þrýsting til að koma þeim af stað. Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, en nokkur óvissa er um hvenær nægilegum þrýstingi verður náð til að koma nýju kvikuhlaupi af stað og að kvika nái til yfirborðs.“

Áfram fylgst með allan sólarhringinn

„Sólarhringsvakt Veðurstofunnar heldur áfram að fylgjast náið með virkninni. Nýjar gossprungur gætu opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og hraunflæði gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara. Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður,  staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.“

„Aukin skjálftavirkni hefur verið að mælast á Sundhnúksgígaröðinni síðusta daga. Þessi aukning í skjálftavirkni er líklega merki um spennulosun í og við kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni vegna aukins kvikuþrýstings í kvikuhólfinu undir Svartsengi.“

„Í nótt varð sólarhringsvakt Veðurstofunnar vör við aukna og staðbundna skjálftavirkni suður af Stóra-Skógfelli, eða á svipuðum stað og fyrri kvikuhlaup hafa byrjað.  Aflögunar- og þrýstingsmælingar, sem væru merki um kvikuhlaup, sýndu ekki marktækar breytingar. Virknin stóð yfir í frekar stuttan tíma, en ekki er hægt að útiloka að þarna hafi lítið magn kviku verið að brjóta sér leið.“

Varasamt að vera á ferðinni á Sundhnúksgígaröðinni

„Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat. Það að síðasta gosi sé lokið hafði áhrif á breytingar á nokkrum svæðum, en hættumatið nú endurspeglar hættur í tengslum auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.“

„Þar sem jarðskorpan á umbrotasvæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells er mikið sprungin er líklegt að kvika eigi greiða leið til yfirborðs og því muni ekki mikil skjálftavirkni fylgja þeim umbrotum. Fyrirvarinn á nýju eldgosi getur því orðið mjög stuttur eða jafnvel enginn. Því er mjög varasamt að vera á ferðinni á svæði 3 eins og það er skilgreint á hættumatskorti Veðurstofunnar.“

„Nýtt hættumat gildir til 17. maí að öllu óbreyttu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar
Fréttir
Í gær

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vekur athygli á að glæraísing geti myndast á höfuðborgarsvæðinu síðdegis

Vekur athygli á að glæraísing geti myndast á höfuðborgarsvæðinu síðdegis