fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Fréttir

Sigurbjörg sakar Ásdísi um ólýðræðisleg vinnubrögð – „Hér er verið að afvegaleiða umræðuna,“ segir bæjarstjórinn

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 8. maí 2024 16:00

Ásdís Kristjánsdóttir og Sigurbjörg Erla Egilsdóttir. Myndin er samsett.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi segir Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra hafa viðhaft ólýðræðisleg vinnubrögð með því að skipa upp á sitt einsdæmi starfshóp sem ætlað er það verkefni að skila tillögum til bæjarstjórans um framtíð tónlistarhússins Salarins. Þar að auki hafi Ásdís ritað erindisbréf fyrir starfshópinn ein síns liðs. Þetta hafi bæjarstjórinn allt gert án samráðs við lista – og menningarráð Kópavogs sem fari með málefni Salarins. Gagnrýnir Sigurbjörg vinnubrögð Ásdísar harðlega og segist velta því fyrir sér á hvaða vegferð bæjarstjórinn sé með Salinn. Meirihluti bæjarstjórnar segir ekkert óeðlilegt við vinnubrögð bæjarstjórans sem séu í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar frá síðasta ári. „Hér er verið að afvegaleiða umræðuna með mjög ómálefnalegum hætti,“ segir bæjarstjórinn

Greint var frá því síðastliðið  haust að til stæði að bjóða út rekstur Salarins en tónlistarfólk úr klassíska geiranum. Var ákvörðunin nokkuð umdeild og greint frá því að tónlistarfólk var uggandi yfir áformunum og sagði Salinn afar mikilvægan fyrir klassíska tónlist á Íslandi. Óttaðist tónlistarfólkið að klassísk tónlist myndi alfarið hverfa úr Salnum í kjölfar útboðsins.

Ólga vegna væntanlegs útboðs Salarins í Kópavogi – „Þetta mun enda sem skemmtistaður“

Ekkert hefur hins vegar orðið af útboðinu enn sem komið er en það var meðal kosta sem umræddur starfshópur átti að kanna. Samþykkt var í bæjarstjórn fyrir tæpu ári að skipa starfshópinn en erindisbréf hans var kynnt á síðasta fundi lista- og menningarráðs 26. apríl síðastliðinn.

Sigurbjörg Erla segir í færslu á Facebook-síðu sinni að vinnubrögð Ásdísar bæjarstjóra við skipan í starfshópinn hafi ekki verið í samræmi við það sem tíðkast hafi þegar kemur að skipan í starfshópa, sem og ritun erindisbréfa þeirra, sem bæjarstjórn samþykkir að koma á laggirnar:

„Hingað til, þegar bæjarstjórn hefur ákveðið að skipa starfshóp, hefur tillaga að erindisbréfi komið til umræðu í bæjarráði og lokahönd lögð á það þar, ásamt því að tilnefning í starfshópinn hefur verið á lýðræðislegum grundvelli.“

Enginn rökstuðningur fyrir skipan

Sigurbjörg Erla segir bæjarstjórann hafi bæði skipað í starfshópinn og skrifað erindisbréf fyrir hann án nokkurs samráðs og lagt það síðan fram til kynningar í lista- og menningarráði og síðan bæjarráði. Hún segir einnig að bæjarstjórinn hafi ekki rökstutt það með neinum hætti hvers vegna það fólk sem hún hafi skipað í hópinn varð fyrir valinu:

„Þá var hún jafnframt búin að skipa í starfshópinn, ein síns liðs, annars vegar fjárfesti og hins vegar miðlunarstjóra Samtaka atvinnulífsins, án nokkurs rökstuðnings fyrir því hvers vegna fólk úr þessum áttum á erindi í starfshópinn okkar.“

Sigurbjörg Erla segir einnig að það sé ekki fyllilega rétt sem fram komi í erindisbréfinu að þriðji nefndarmaðurinn sé tilnefndur af Félagi íslenskra hljómlistarmanna (FÍH):

„Þar að auki er þriðji fulltrúinn sagður „tilnefndur af FÍH“ en þegar við spurðumst fyrir um með hvaða hætti það hefði farið fram þá var það þannig að forstöðumaður menningarmála í Kópavogi hringdi í einhvern hjá FÍH og spurði hvort þau féllust ekki á það að viðkomandi yrði þarna í þeirra nafni.“

Segir bæjarfulltrúinn að Ásdís bæjarstjóri fari með vinnubrögðum sínum algjörlega fram hjá Lista- og menningarráði sem sé samkvæmt erindisbréfi falið að fara með málefni Salarins og segir hugmyndir bæjarstjórans um breytingar á rekstri hússins hafa verið umdeildar innan lista- og menningarráðs og bæjarstjórnar sem og meðal tónlistarfólks. Hún segir bæjarstjórann hvorki hafa umboð til að samþykkja erindisbréf fyrir starfshópinn né til að skipa í hann:

„Það er í raun fjarstæðukennt að hún eigi að semja erindisbréf, tilnefna og skipa í starfshóp sem gera á tillögur til hennar sjálfrar. Málatilbúnaðurinn er enn langsóttari í ljósi þess að allt lista- og menningarráð hefur ítrekað bókað (í einingu) um að í starfshópnum skuli eiga sæti fulltrúar meiri- og minnihluta í lista- og menningarráði, ásamt fulltrúa frá Tónlistarskóla Kópavogs, sem deilir eignarhaldi á tónlistarhúsinu með Kópavogsbæ“, skrifar Sigurbjörg Erla og spyr að lokum á hvaða vegferð bæjarstjórinn sé með Salinn.

Bæjarstjórinn segir gagnrýnina ómálefnalega

Ásdís gefur lítið fyrir gagnrýni Sigurbjargar Erlu. Í skriflegu svari til DV segir hún að skipan starfshópsins sé eðlilegt framhald málsins.

„Við skipan starfshópsins var horft til þess að nálgast viðfangsefnið með faglegum hætti. Þeir einstaklingar sem völdust til verksins búa öll yfir mikilli reynslu sem á eftir að nýtast vel í þeirri vinnu sem framundan er. Hlutverk hópsins er að efla enn frekar það frábæra starf sem fram fer í Salnum og móta tillögur sem snúa að því að bjóða upp á fjölbreyttari viðburði sem fleiri bæjarbúar og aðrir gestir njóta góðs af,“ segir Ásdíus og bendir á að ekki verði ráðist í breytingar á grundvelli tillagna hópsins öðruvísi en að þær hafi verið ræddar og kynntar í lista- og menningarráði, bæjarráði og bæjarstjórn.

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri. Mynd/Kópavogsbær

„Hér er verið að afvegaleiða umræðuna með mjög ómálefnalegum hætti. Faglega nálgunin var ekki síst til komin til til þess að skapa frið til að vinna þessi mál áfram, enda hefur minnihlutinn í bænum lagst gegn öllum breytingum sem við höfum lagt til í menningarmálum bæjarins. Áherslur meirihlutans á kjörtímabilinu hafa verið á að þróa menningarstarfið í takt við nýja tíma og vera brautryðjendur á þeim vettvangi. Á laugardag sjáum við stóra vörðu á þeirri vegferð þegar við opnum nýtt upplifunarrými vísinda og menningar þar sem starfsemi Bókasafns Kópavogs og Náttúrufræðistofu er tvinnuð saman með ótrúlega skemmtilegum hætti. Hugmyndavinna með Salinn og þessi starfshópur sem hér er til umræðu er hluti af þeirri vegferð. Ég hlakka til að sjá hvað kemur úr þeirri vinnu og læt þessa gagnrýni minnihlutans, sem er endurtekið efni frá því að við samþykktum tillögurnar í menningarmálum, ekki trufla mig,“ segir Ásdís.

Hafi víst umboð til að skipa í starfshópinn

Eins og áður segir var erindisbréf starfshópsins lagt fram til kynningar á fundi lista- og menningarráðs 26. apríl og fulltrúum í ráðinu því vart ætlað að breyta því á fundinum jafnvel þó þeir hefðu viljað það.

Erindisbréfið var af einhverjum ástæðum ekki birt með fundargerð lista- og menningarráðs á vef Kópavogsbæjar. DV hefur hins vegar erindisbréfið undir höndum. Í því kemur meðal annars fram að hópnum sé ætlað að móta tillögur um hvernig eigi að fjölga viðburðum og gestum í Salnum og þannig auka tekjur hans. Fulltrúar í hópnum eru Davíð Þór Jónsson tónlistarmaður, sem samkvæmt erindisbréfinu er tilnefndur af FÍH en eins og áður kom fram segir Sigurbjörg Erla að FÍH hafi ekki átt frumkvæði að því að Davíð Þór yrði tilnefndur af hálfu samtakanna en hafi ekki gert athugasemd við að hann yrði tilnefndur í þeirra nafni. Önnur í hópnum eru Halldór Friðrik Þorsteinsson fjárfestir og Védís Hervör Árnadóttir forstöðumaður miðlunarsviðs Samtaka atvinnulífsins, sem er formaður hópsins, sem tilnefnd eru af bæjarstjóra. Í bréfinu eru ekki færð rök fyrir því hvers vegna bæjarstjóri tilnefndi Halldór og Védísi í hópinn en sú síðarnefnda á til að mynda tónlistarferil að baki en minna hefur borið á henni í þeim geira undanfarin misseri.

Fulltrúar minnihlutaflokkanna í ráðinu lögðu fram bókun þar sem þeir lýstu óánægju með að lista- og menningarráð væri sniðgengið í málinu og sögðu bæjarstjórann hafa takmarkaðan skilning á lýðræði:

„Fulltrúar Vina Kópavogs, Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata mótmæla því harðlega að enn og aftur sé lista- og menningarráð sniðgengið við ákvarðanatöku um málefni sem heyra undir ráðið en fyrir liggja þrjár bókanir um mikilvægi þess að í starfshópinn séu skipaðir fulltrúar úr meiri- og minnihluta Lista- og menningarráðs sem og fulltrúi frá Tónlistarskóla Kópavogs frá 23. maí 2023, 5. september 2023 og 22. mars s.l. Auk þess var mikilvægi þessa ítrekað við bæjarstjóra á fundi ráðsins 6. mars s.l. Framferði bæjarstjóra ber enn og aftur vitni um takmarkaðan skilning og áhuga á lýðræði. Augljóst er að um málamyndagjörning er að ræða vegna knapps tímafrests og fárra funda.“

Fulltrúar meirihlutans, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, andmæltu þessu og sögðu að bæjarstjórn hefði þegar samþykkt, á fundi á síðasta ári, að bæjarstjórinn myndi skipa í starfshópinn og eftir að hún hefði ráðgast við FÍH hefði hún komist að niðurstöðu. Fagnaði meirihlutinn jafn framt því að starfshópnum væri komið á laggirnar.

Hafi túlkað samþykkt bæjarstjórnar frjálslega

Á fundi bæjarráðs 2. maí síðastliðinn gerðu fulltrúar minnihlutaflokkanna frekari athugasemdir við vinnubrögð bæjarstjórans við skipan starfshópsins og héldu því fram að bæjarstjórn hefði ekki samþykkt að bæjarstjórinn skyldi ein síns liðs skipa starfshópinn eins og fulltrúar meirihlutans hafi haldið fram. Í bókun minnihlutans segir meðal annars:

„Bæjarstjóra hefur hvorki verið falið umboð til þess að samþykkja erindisbréf né skipa í starfshópinn. Á bæjarstjórnarfundi þann 25. apríl 2023 var eftirfarandi tillaga samþykkt:

“Lagt er til að stofnaður verði starfshópur sem komi með tillögur til bæjarstjóra um hvernig unnt sé að fjölga viðburðum og komu gesta. Þá verði meðal verkefna starfshópsins að kortleggja kosti þess og galla við að útvista rekstri Salarins.?

Óskiljanlegt er hvernig bæjarstjóri gat túlkað ofangreinda tillögu þannig að hún ein semji, undirriti og stimpli erindisbréf, ásamt því að ráða vali á fulltrúum í starfshóp sem gera á tillögur til hennar. Ákvörðun hennar er harðlega mótmælt.“

Með því að skoða fundargerð fundar bæjarstjórnar frá 25. apríl 2023 má glögglega sjá að minnihlutann fer rétt með umrædda tillögu.

Á fundi bæjarráðs 2. maí síðastliðinn vísuðu fulltrúar meirihlutans í sveitarstjórnarlög sem þeir sögðu veita bæjarstjóra leyfi til að framkvæma tillöguna, um að starfshópurinn yrði stofnaður, með þessum hætti:

„Við skipanina studdist bæjarstjóri við 3. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga sem fela honum að þær ákvarðanir sem teknar eru af hálfu sveitarstjórnar og annarra nefnda komist til framkvæmda, hafi sveitarstjórn ekki falið það öðrum. Við val á hópnum var horft til reynslu og fagþekkingar á sviði lista- og menningarmála.“

Þessari bókun svaraði minnihlutinn meðal annars með því að minna á að samkvæmt bæjarmálasamþykkt og sveitarstjórnarlögum fari bæjarstjóri með framkvæmdastjórn sveitarfélagsins ásamt bæjarráði sem fari með eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélagsins. Það sé fjarstæðukennt að þeirra mati að túlka málið þeim hætti að tillagan hefði veitt bæjarstjóra heimild til að semja erindisbréf, tilnefna og skipa í starfshóp og leggja niðurstöðu sína fullbúna fyrir lýðræðislega kjörna fulltrúa.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Grindavíkurbær vildi ekki kaupa Sturlu sem hefur verið fluttur um set

Grindavíkurbær vildi ekki kaupa Sturlu sem hefur verið fluttur um set
Fréttir
Í gær

Páll ekki hrifinn af „derringi“ Halldórs Benjamíns – Myndi ekki henta sem formaður Sjálfstæðisflokksins

Páll ekki hrifinn af „derringi“ Halldórs Benjamíns – Myndi ekki henta sem formaður Sjálfstæðisflokksins
Fréttir
Í gær

„Gríðarmikil“ og óvenjuleg skjálftahrina hafin í Bárðarbungu – Minnir á kvikuinnskot

„Gríðarmikil“ og óvenjuleg skjálftahrina hafin í Bárðarbungu – Minnir á kvikuinnskot
Fréttir
Í gær

„Við erum ekki í stríði – en það er heldur ekki friður“ segir forsætisráðherra Svíþjóðar

„Við erum ekki í stríði – en það er heldur ekki friður“ segir forsætisráðherra Svíþjóðar