fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

Skip Eimskips missti fimmtán gáma í sjóinn austan við Vestmannaeyjar og laskaðist – „Mannleg mistök“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 4. maí 2024 08:45

Einn stakkur var ekki festur kyrfilega og fór af stað. Mynd/Eimskip

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fimmtán gámar féllu útbyrðis af Dettifossi, flutningaskipi Eimskip, í lok mars. Skipið laskaðist við þetta og gáma hefur rekið á fjörur á Suðurlandi.

Atvikið átti sér stað aðfaranótt 21. mars, austan við Vestmannaeyjar, þegar Dettifoss var að sigla frá Reykjavík til Reyðarfjarðar. En þangað fer skipið vanalega til þess að sækja fisk til útflutnings.

Að sögn heimildarmanns DV hafði gleymst að sjóbúa heilan „stakk“ af gámum, en stakkur er ein gámaröð. Veðrið var leiðinlegt, þó ekkert óveður, nógu slæmt var í sjóinn til þess að nokkrir stakkar af gámum færu af stað.

Enduðu alls fimmtán tómir gámar í sjónum með miklu bramli. Að sögn heimildarmanns kom gat á skipið vegna þessa.

Mannleg mistök

Dettifoss er, ásamt Brúarfossi, stærsta flutningaskipið í íslenska fraktskipaflotanum. 180 metra langt og 31 metra breitt. Það var smíðað árið 2020 í Kína, sérhannað fyrir norðlægar aðstæður. Siglir það undir færeysku flaggi eins og önnur skip Eimskips. Dettifoss getur borið 2150 gámaeiningar.

Edda segir afar sjaldgæft að gámar fari útbyrðis. Mynd/Eimskip

„Því miður urðu mannleg mistök til þess að 15 tómir þurrgámar féllu í sjóinn af skipi félagsins á siglingu til Reyðarfjarðar þann 21. mars,“ segir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri á mannauðs- og samskiptasviðs Eimskips. Segir hún tjónið á skipinu hafa verið minniháttar.

Sáu gám á floti

Heimildarmenn DV, sem starfa sem sjómenn, furða sig á því að hafa ekki heyrt neina tilkynningu um að hafa aðgát vegna gáma. En tómir gámar, sérstaklega nýlegir, gámar geti auðveldlega flotið og skapað stórhættu fyrir smábáta. Sumir gámana hefur rekið upp í fjörur á Suðurlandi.

Að sögn Eddu var Landhelgisgæslan samstundis upplýsti um atvikið. Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir að tilkynning hafi verið send út.

„Áhöfn flutningaskipsins hafði samband við Landhelgisgæsluna að morgni 21. mars og tilkynnti að skipið hefði misst um það bil fimmtán gáma í sjóinn út af Meðallandsbugt,“ segir Ásgeir. „Áhöfnin á TF-GRO var á sama tíma að undirbúa æfingarflug og var ákveðið að þyrlan færi yfir svæðið og kannaði hvort einhverjir gámar sæjust á floti. Rétt austan við Vestmannaeyjar kom áhöfn þyrlunnar auga á einn gám á floti í sjónum. Landhelgisgæslan útbjó siglingaviðvörun til sjófarenda vegna málsins sem send var með Navtex og var einnig lesin á VHF.“

Verkferlar bættir

Gámar hafa áður fyrr farið í sjóinn. Til dæmis missti eldri Dettifoss nokkra gáma í sjóinn norðvestur af Færeyjum árið 2014 í aftakaveðri. Þetta er þó ekki algengt.

„Sem betur fer kemur það örsjaldan fyrir að gámar fari í sjóinn en félagið hefur í kjölfarið farið vel yfir málið og verkferla til að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur,“ segir Edda.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Gunnar Smári og Vigdís Hauks í hörkudeilum: „Ertu að ýja að því að ég hafi stolið þessum peningum og keypt mér lambahrygg fyrir hann?“

Gunnar Smári og Vigdís Hauks í hörkudeilum: „Ertu að ýja að því að ég hafi stolið þessum peningum og keypt mér lambahrygg fyrir hann?“
Fréttir
Í gær

Bergþór skýtur fast á Bjarna og Sigurð Inga vegna uppátækja þeirra í kosningabaráttunni

Bergþór skýtur fast á Bjarna og Sigurð Inga vegna uppátækja þeirra í kosningabaráttunni
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Hún óttaðist líka um líf sitt“

„Hún óttaðist líka um líf sitt“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Geir Haarde segir Steingrím J. hafa hótað sér í hruninu og verið höfuðpaurinn í Landsdómssamsærinu

Geir Haarde segir Steingrím J. hafa hótað sér í hruninu og verið höfuðpaurinn í Landsdómssamsærinu