Boris Johnson, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, lenti í heldur vandræðalegri uppákomu á kjörstað í morgun. Bresku sveitastjórnarkosningarnar standa nú yfir og mætti Johnson á kjörstað í Suður Oxfordskíri þar sem hann er með heimilisfesti. Þá kom hins vegar í ljós að Johnson hafði gleymt gildum persónuskilríkjum en hann gat aðeins framvísað skilríkjum án myndar en slík skilríki voru gerð ógild þegar hann sat í stóli forsætisráðherra árið 2022.
Þrátt fyrir að Johnson sé einn af þekkstu einstaklingum Bretlands skal eitt yfir alla ganga og var honum synjað um kjörseðil.
Þurfti forsætisráðherrann fyrrverandi því að hendast aftur heim til sín, ná í skilríkin og svo mætti hann aftur á kjörstað. Þá gekk allt eins og í sögu og Johnson fékk að greiða atkvæði.
Forsætisráðherrann fyrrverandi tók veseninu þó vel og hrósaði starfsfólki á kjörstað fyrir að sveigja ekki reglurnar fyrir hann.