Kona hefur verið dæmd í Héraðsdómi Reykjaness fyrir ýmis brot sem hún framdi á árunum 2022, 2023 og 2024 en flest voru þau framin í Reykjanesbæ. Játaði konan öll brotin.
Hún var ákærð fyrir að hafa í fyrsta lagi í apríl 2022 á Laugavegi við Nóatún í Reykjavík, sem ökumaður bifreiðar, opnað ökumannsdyr kröftuglega innan frá með öðrum fæti og veitt þannig með ásetningi lögreglumanni sem var við skyldustörf þungt högg á hægri fót með þeim afleiðingum að hann fann til í hægra hné.
Því næst var konan ákærð fyrir að hafa í apríl 2023 á Njarðarbraut við Nesvelli í Reykjanesbæ veist með ofbeldi að lögreglumanni sem var við skyldustörf og sparkað tvisvar í fætur hans.
Þriðja ákæruatriðið varðaði brot á fíkniefnalöggjöfinni með því að hafa í júlí 2023 haft í vörslu sinni 2,43 grömm af marijúana.
Það fjórða snerist um umferðarlagabrot með því að hafa í júlí 2023 ekið bifreið eftir Hafnargötu í Reykjanesbæ án þess að hafa kveikt á ökuljósum og fyrir að hafa, í kjölfar þess að lögreglan stöðvaði akstur hennar á Skólavegi, ekið af stað þrátt fyrir skýr merki og fyrirmæli um að stöðva og bíða. Konan hafi stöðvað bifreiðina aftur á Sólvallagötu en ekið aftur af stað, þrátt fyrir skýr merki og fyrirmæli um að stöðva og bíða, þegar lögreglumenn nálguðust bifreið hennar en akstur konunnar hafi að lokum verið stöðvaður á Hringbraut við Skólaveg í Reykjanesbæ.
Fimmta brotið sem konan var ákærð fyrir var umferðarlagabrot og brot á lögreglusamþykkt. Það fólst í því að hafa að nóttu til í janúar 2024 ítrekað kastað flugeldum frá bifreið þar sem hún stóð í lausagangi á bifreiðastæði við Hafnargötu móts við Skólaveg í Reykjanesbæ og þannig valdið ónæði, raskað næturró manna og raskað allsherjarreglu og í kjölfar afskipta lögreglu neitað að gefa upp nafn og kennitölu og ekki framvísað ökuskírteini.
Sjötta og síðasta brotið sem konan var ákærð fyrir var að hafa í október 2023 sparkað í vinstri hlið lögreglubifreiða þar sem hún stóð kyrrstæð og mannlaus á bifreiðastæði við lögreglustöðina að Brekkustíg í Reykjanesbæ með þeim afleiðingum að skemmdir urðu á vinstri hliðarspegli og forgangsljósi á sama spegli.
Konan viðurkenndi fyrir dómi að hafa gerst sek um öll þau brot sem hún var ákærð fyrir.
Hún hafði áður gerst sek um vopnalagabrot, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot.