Bæjarstjórn Akureyrar ákvað nýlega að taka upp gjaldtöku á salernum í Lystigarðinum á Akureyri. Nú hefur verið ákveðið að tvöfalda gjaldið.
Bæjarráð Akureyrar samþykkti tillögu Umhverfis- og mannvirkjaráðs á fundi sínum í gær. Áður hafði verið ákveðið að rukka eina evru inn á klósettin, sem eru um 150 krónur miðað við núverandi gengi. En með breytingunni verður aðgengið að klósetti hækkaður í 300 krónur.
Í minnisblaði ráðsins kemur fram að innleiðing á búnaði fyrir gjaldtöku standi yfir. Ýmsar ástæður eru tíundaðar fyrir þessari miklu hækkun, sem tekur gildi 1. maí næstkomandi.
„Ástæða þess að lagt er til að hækka gjaldið á hverja ferð er til að standa á móti þeim kostnaði sem hlýst við innleiðingu á gjaldtökunni ásamt rekstrarkostnaði við gjaldtökubúnaðinn og rekstrarkostnaði við salernin sjálf, auk fjölgunar á salernum á svæðinu,“ segir í minnisblaðinu.
Bæjarstjórn hefur farið ýmsar leiðir til að fjármagna rekstur Lystigarðsins og salernanna þar, sem kostar tugmilljónir króna á ári. Meðal annars valfrjáls framlög gesta.