Kíghósti hefur greinst hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu. Sumir þeirra hafa verið með einkenni frá því í mars en aðrir skemur. Ljóst er að sýkingin hefur náð útbreiðslu, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Í henni segir að kíghósti sé öndunarfærasýking sem er algengust hjá börnum, einkum á fyrstu mánuðum ævinnar. Hjá unglingum og fullorðnum birtist sjúkdómurinn sem langvarandi og þrálátur hósti.
Einstaklingar með kíghósta þurfa að draga eins og kostur er úr umgengni við ungbörn í um tvær vikur ef innan við 10 ár eru frá því viðkomandi var bólusettur eða lengur ef lengra er frá bólusetningu. Mikilvægt er að þau sem smitast haldi sig heima á meðan veikindin ganga yfir.
Sýklalyf gagnast sjaldan til að draga úr veikindum vegna kíghósta en er beitt í einstaka tilfellum, til að mynda ef sýkingin veldur bráðri lungnabólgu.
Bólusetningar mikilvægar
Bólusetning móður á meðgöngu dregur úr hættu á að börn undir 6 mánaða aldri veikist alvarlega og bólusetning samkvæmt áætlun fyrir ungbörn viðheldur svo vörninni næstu 6 mánuði eftir það. Endurtekin bólusetning er nauðsynleg til að viðhalda markvissu viðnámi gegn kíghósta, jafnvel hjá þeim sem hafa fengið kíghósta.
Mælt er með bólusetningu á 10 ára fresti eftir almennar barnabólusetningar, þegar tilefni gefst. Starfsfólk heilbrigðisstofnana sem sinnir börnum og aðrir sem umgangast börn undir 1 árs á næstu mánuðum ættu að sækjast eftir bólusetningu ef 10 ár eða fleiri eru liðin frá síðasta skammti.
Bólusetning á meðgöngu miðast að því að vernda barnið og því er mælt með henni á hverri meðgöngu til að verja hvert barn fyrir sig. Þær bólusetningar verja einnig móðurina við kíghósta eftir meðgöngu