Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata og fyrsti flutningsmaður frumvarps um hækkun kynferðislegs lágmarksaldurs, segir Umboðsmann barna fara með rangt mál um að ekki hafi verið haft samráð við börn um gerð frumvarpsins. Hann gagnrýnir einnig Ákærendafélag Íslands sem hafði uppi sömu fullyrðingar í neikvæðri umsögn sinni um málið.
DV fjallaði um frumvarpið í gær sem Píratar lögðu fram í annað sinn. Salvör Nordal, umboðsmaður barna, skrifaði neikvæða umsögn um frumvarpið og sagði ekki rétt að hækka kynferðislegan lágmarksaldur nema í samráði við börn.
Mannréttindaskrifstofa Íslands og Barna- og fjölskyldustofa skiluðu hins vegar inn jákvæðum umsögnum um frumvarpið.
„Umboðsmaður barna gerir hins vegar neikvæðar athugasemdir við frumvarpið og tekur sérstaklega fram að ekki hafi verið haft samráð við börn um þetta mál. Það er hreinlega alls ekki rétt,“ segir Gísli í færslu um málið á samfélagsmiðlum. „Í fyrsta lagi hef ég rætt þetta mál við unga brotaþola sem hafa upplifað af eigin skinni það hvað þetta gat í löggjöfinni leiðir af sér. Ég hef líka rætt þetta við fulltrúa í ungmennaráðum ýmissa félagasamtaka, þátttakendur á Barnaþingi og á ungmannaráðstefnu UMFÍ.“
Gísli reifar einnig neikvæða umsögn Ákærendafélags Íslands sem töldu það vandamál að engar rannsóknir lægju fyrir.
„Gögn sýna einmitt að börn undir 18 ára aldri eru mjög stór hópur þolenda og að gerendur eru mjög oft mun eldri. Erlendar rannsóknir sýna hið sama og hefur kynferðislegur sjálfræðisaldur verið að hækka víðast hvar í heiminum,“ segir Gísli. Hann hafi hitt þingmenn víða að úr heiminum á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku sem hafi sagt mikilvægt að taka á þessu vandamáli. Einnig að það væri verið að vinna að því í viðkomandi löndum.
„Við þurfum að vernda börnin okkar og það er sorglegt að sjá að ákærendur og þau sem eiga að berjast fyrir réttindunum barna í samfélaginu séu ekki tilbúin að skoða málið með opnum huga, heldur eru föst í fortíðinni,“ segir Gísli að lokum.