fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Kærunefnd húsamála segist vera sprungin

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 15. apríl 2024 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í umsögn Kærunefndar húsamála um frumvarp til húsaleigulaga sem nú er til meðferðar á Alþingi segir meðal annars að laun nefndarmanna séu ekki í takt við vinnuframlag og vegna álags og of lágra fjárframlaga nái nefndin sjaldnast að standa við lögbundin málsmeðferðartíma og sé því í raun sprungin.

Á vefsíðu Stjórnarráðsins segir um Kærunefnd húsamála að til hennar sé hægt að kæra ágreining milli leigjenda og leigusala um framkvæmd og/eða gerð leigusamnings samkvæmt húsaleigulögum, ágreining milli eigenda í fjöleignarhúsum sem þarf að varða réttindi þeirra og skyldur samkvæmt lögum um fjöleignarhús og ágreining sem upp kann að koma á milli leigusala og leigutaka lóða undir hús í frístundabyggð. Einnig sé hægt að bera undir nefndina ágreiningsefni um réttindi og skyldur í frístundabyggð.

Ljóst er að mikið hefur mætt á nefndinni undanfarin misseri og 12. mars síðastliðinn var birt sérstök tilkynning á vef Stjórnarráðsins um að vegna gríðarlegs málafjölda komi nefndin til með að forgangsraða húsaleigumálum í ljósi þess að í þeim tilvikum séu kveðnir upp aðfararhæfir úrskurðir sem þarfnast skjótrar úrlausnar. Af þeim sökum sé fyrirséð að tafir verði á afgreiðslu mála sem varða ágreining á grundvelli laga um fjöleignarhús. Einnig var sérstaklega tekið fram að brýnt sé að þeir sem leita til nefndarinnar, einkum þeir sem óska álits á grundvelli laga um fjöleignarhús, hafi málsatvikalýsingu kjarnyrta og ágreiningsefni skýr. Þá sé mikilvægt að aðeins séu lögð fram gögn sem hafa bein tengsl við ágreiningsefnið.

Launin ákveðin fyrir „löngu síðan“

Í umsögn nefndarinnar um frumvarp til húsaleigulaga segir meðal annars að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir meiri málshraða hjá kærunefndinni í tilteknum málum auk þess sem málafjöldi komi til með að aukast verði frumvarpið að lögum.

Segir ennfremur að ítrekað hafi verið óskað eftir auknu fjárframlagi til nefndarinnar. Nefndarmenn séu á föstum mánaðarlegum launum og séu þau ekki í takt við vinnuframlag. Launin hafi verið ákveðin fyrir „löngu síðan og í allt öðru umhverfi“ og hafi ekki haldið í við málafjölda, álag og launaþróun.

Í umsögninni kemur fram að á síðasta ári hafi nefndinni borist 148 kærur eða álitsbeiðnir og hafi nefndin kveðið upp 91 úrskurð eða álit. „Málahalinn“ sé því orðinn „umtalsverður og óásættanlegur“.

Vegna þessa nái nefndin sjaldan að standa við tveggja mánaða lögbundin málsmeðferðarfrest. Málafjöldinn hafi farið fyrst yfir 100 mál árið 2018 og því aukist um 50% á nokkrum árum. Umfang og flækjustig málanna hafi þar að auki aukist verulega. Nefndin sé því í raun „löngu sprungin.“

Fjárframlög verði ekki aukin

Nefndin segist hafa gert innviðaráðuneytinu grein fyrir stöðu mála á fundi fyrr á þessu ári og tekið skýrt fram að hún myndi ekki ná að standa við lögbundinn málshraða með óbreyttu fyrirkomulagi. Ráðuneytið hafi einnig tekið skýrt fram að fjárframlög til nefndarinnar yrðu ekki aukin þar sem ekki hafi verið gert ráð fyrir því í fjárlögum. Nefndin hafi því neyðst til að gefa út hina sérstöku tilkynningu á vefsíðu Stjórnarráðsins sem áður var minnst á.

Í ljósi þessa hafi það því komið nefndarmönnum mjög á óvart að í frumvarpinu séu gerðar kröfur um styttri málsmeðferðartíma í vissum tegundum mála og enn standi til að auka álag á nefndina án
þess að fjárframlög séu aukin verulega.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rúmlega 8 þúsund hafa skrifað undir lista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Rúmlega 8 þúsund hafa skrifað undir lista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Öfgar heyra sögunni til – Erfiðleikar, gleði, sigrar og stundum sorg

Öfgar heyra sögunni til – Erfiðleikar, gleði, sigrar og stundum sorg
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít