fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Bjarni og Inga nokkuð sammála um að kostnaður við árshátíð Landsvirkjunar hafi verið verulegur

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 15. apríl 2024 17:30

Inga Sæland og Bjarni Benediktsson. Samsett mynd/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í hádegisfréttum RÚV í dag kom fram að kostnaður við árshátíð Landsvirkjunar sem fram fór á Egilsstöðum um helgina hafi verið verulegur eða hátt í 100 milljónir króna. Starfsmönnum fyrirtækisins, sem er alfarið í eigu íslenska ríkisins, var flogið með breiðþotu Icelandair frá höfuðborgarsvæðinu austur á Egilsstaði þar sem gist var í tvær nætur. Inga Sæland formaður Flokks fólksins tók þetta upp í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag og beindi spurningum sínum til Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra sem tók undir að um verulegan kostnað væri að ræða og sagði mikilvægt að opinber fyrirtæki gættu hófs en að Landsvirkjun stæði vel og skilaði miklum arði til ríkisins.

Í fréttum RÚV kom fram að dagskrá árshátíðarinnar hefði verið vegleg og teygt sig yfir tvo daga. Rætt var við Þóru Arnórsdóttur forstöðumann samskipta hjá Landsvirkjun. Hún sagði það hafa staðið til síðan 2020 að halda árshátíðina á landsbyggðinni en fresta hafi þurft árshátíðinni þrjú ár í röð vegna Covid-faraldursins og á síðasta ári hafi ekki gefist nægur tími til að halda árshátíðina utan höfuðborgarsvæðisins. Þegar spurt var um kostnaðinn sagði Þóra:

„Þetta er rándýr árshátíð.“

Hún sagði kostnaðinn nema tugum milljóna en undir 100 milljónum. Lokatölur væru þó ekki komnar. Þegar makar starfsmanna væru taldir með hefði á fjórða hundrað manns verið flogið til Egilsstaða.

Hvaða ásýnd?

Inga Sæland spurði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi Bjarna Benediktsson forsætisráðherra meðal annars um hvers konar skilaboð þetta sendi út í samfélagið og hver ásýnd þess væri að opinbert fyrirtæki eyddi svo háum fjárhæðum í eigin árshátíð:

„Ég velti því fyrir mér, hæstvirtur forsætisráðherra, hvaða ásýnd er þetta sem við erum að senda út í samfélag sem er að bugast hér undan okurvöxtum og rosalega þröngu búi hjá mörgum fyrirtækjum og heimilum í landinu? Hvers lags skilaboð sendum við fólkinu okkar þegar við í rauninni getum ekki kannski haft á tilfinningunni að við séum að upplifa þetta brjálæði sem geisaði hér fyrir efnahagshrunið 2008, þar sem skiptir engu máli hvað hlutirnir kosta?“

Inga bætti síðan við:

„Eigum við virkilega að senda svona skilaboð? Hver er það sem fer með til dæmis stjórn Landsvirkjunar? Er það bara forstjórinn? Er Landsvirkjun fé án hirðis? Á að reka þetta fyrirtæki bara fyrir starfsmennina eins og þeir eigi það bara sjálfir? Er það furða að manni misbjóði? Ég er eiginlega enn þá í hálfgerðu áfalli yfir þessari frétt.

Verulegur kostnaður

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tók undir að um verulegan kostnað væri að ræða og sagði í svari sínu að eigendastefna ríkisins miðaði að því að framganga ríkisfyrirtækja yrði að einkennast af trausti og trúðverðugleika:

„Mér finnst vera ákveðinn blæbrigðamunur á því að leggja í langferð til Egilsstaða eða fljúga suður til Evrópu til að halda árshátíð. Það er munur á því. En kostnaðurinn sem háttvirtur þingmaður nefnir er verulegur, ég verð að taka undir það, ég get ekki annað. Það er auðvitað verulegur tilkostnaður að efna til árshátíðar sem kostar ef rétt er hér haft eftir í kringum 100 milljónir. Þess vegna segi ég bara almennt til allra félaga í eigu ríkisins og stofnana að við viljum að gengið sé þannig fram að það sé til eftirbreytni. Það er bara svo einfalt.“

Inga Sæland kom aftur upp í pontu og vísaði meðal annars til þess að heimilin í landinu myndu eflaust vilja sjá orkureikninga sína lækkaða sem nemur 100 milljónum og minnti á að þessa upphæð væri t.d. hægt að setja í aðstoð við veikustu fíklana eða til að veita fátækustu ellilífeyrisþegunum jólabónus. Þessu tvennu hefði hins vegar verið hafnað af meirihluta þingsins.

Standi vel

Í seinna svari sínu lagði Bjarni áherslu á að opinber fyrirtæki ættu að gæta hófs en minnti um leið á að rekstur Landsvirkjunar hefði gengið mjög vel:

„Ég bara ítreka það sem ég hef hér sagt að það er skynsamlegt af opinberum stofnunum og fyrirtækjum í eigu ríkisins að sýna hófsemd í útgjöldum af þessum toga um leið og menn gera, eins og eðlilegt er nú til dags, vel við sitt starfsfólk. Fyrst hér er verið að nefna fjárhæðir og setja í samhengi við rekstur Landsvirkjunar eða önnur verkefni í landinu þá má svo sem alveg halda því hér til haga að Landsvirkjun hefur aldrei í sögunni gengið betur heldur en undanfarin ár, hefur aldrei greitt hærri arð til ríkisins, sem skilar sér inn í fjárlög á hverju ári, heldur en undanfarin ár á sama tíma og fyrirtækið hefur nánast greitt upp allar sínar skuldir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Hafberg í Lambhaga lætur samkeppnisaðila sinn heyra það

Hafberg í Lambhaga lætur samkeppnisaðila sinn heyra það
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Í gær

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá