Fjölskylda Joel Cauchi, sem drap sex manneskjur og særði fjölmarga aðra í hnífaárás í verslunarmiðstöð í Sydney í gær, hefur sent frá yfirlýsingu þar sem fram kemur að þau séu miður sín yfir níðingsverki sonar þeirra. Þá senda þau hlýjar kveðjur til þeirra sem eiga um sárt að binda eftir árásina. Þá hefur komið fram að þau sendu einnig stuðningskveðju lögreglukonunnar sem réðst ein til atlögu gegn morðingjanum og endaði með að skjóta hann til bana. Lögreglukonan, sem reyndi í kjölfarið að bjarga lífi Cauchi, hefur verið hyllt sem hetja í Ástralíu en er eðli málsins samkvæmt eyðilögð eftir hina hræðilegu upplifun.
„Gjörðir Joels voru hryllilegar og við erum enn að reyna að meðtaka hvað gerðist,“ segir fjölskyldan í yfirlýsingunni. Í henni kemur fram að Cauchi hafi glímt við erfið andleg veikindi frá 17 ára aldri en hafði fram að ódæðinu í verslunarmiðstöðinni aldrei komist í kast við lögin.
Fjölskyldan varð fyrir því áfalli að sjá myndir úr öryggismyndavélum í fréttum af atburðinum og þannig báru þau kennsl á son sinn. Höfðu þau þegar í stað samband við lögregluyfirvöld vegna málsins og hafa átt í nánu samstarfi við yfirvöld síðan.
Joel, sem var fertugur að aldri, hafði nýlega flutt til Sydney frá Queensland en hann var ekki í reglulega sambandi við fjölskyldu sína. Hann átti ekki varanlegan samastað í borginni og svaf stundum í bíl sínum eða gistiheimilum ef hann átti efni á því. Þá skráði hann sig á vefsíður þar sem bauð fram þjónusta sína sem fylgdarsveinn.
Fimm konur voru meðal fórnarlamba Cauchi sem og einn karlkyns öryggisvörður. Rannsakar lögregla nú hvort að konur hafi verið skotmark árásar Cauchi.