fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Ökumaður á Akureyri gáði ekki að sér – Afleiðingarnar voru skelfilegar

Ritstjórn DV
Föstudaginn 12. apríl 2024 14:45

Frá Akureyri. mynd/northiceland.is Myndin tengist frétt ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur sent frá sér skýrslu vegna banaslyss sem varð á Akureyri í ágúst 2022 þegar ekið var á gangandi vegfaranda. Maðurinn var á áttræðisaldri. Það er niðurstaða nefndarinnar að orsakir slyssins hafa verið margvíslegar en meginorsökin hafi verið sú að ökumaður bifreiðarinnar hafi ekki, þegar hann tók vinstri beygju af Strandgötu inn að Hofsbót, gætt að umferð gangandi vegfarenda sem veita hafi átt forgang.

Í skýrslunni segir að slysið hafi orðið með þeim hætti að gangandi vegfarandinn hafi verið á leið eftir gönguleið á Hofsbót og til hægri inn á mið gatnamót Strandgötu og Hofsbótar. Á sama tíma hafi Mercedes Benz Vito 4×4 fólksbifreið ekið Strandgötu og í vinstri beygju inn á Hofsbót til suðausturs. Vegfarandinn varð fyrir bifreiðinni á miðjum gatnamótunum og slasaðist alvarlega við áreksturinn. Hann lést daginn eftir á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Sagðist ökumaðurinn ekki hafa séð manninn áður en hann ók á hann.

Í skýrslunni segir enn fremur að af myndbandsupptökum frá staðnum megi ráða að ökumaðurinn hafi ekki notað stefnuljós áður en hann tók beygjuna. Vegalengd frá því að ökumaðurinn byrjaði að beygja og þar til bifreiðinni hafi verið ekið á vegfarandann hafi verið stutt en slysið orðið á eystri akrein Strandgötu. Vinstri framhorn bifreiðarinnar hafi rekist í vegfarandann.

Ók viðstöðulaust – Sviðsetning studdi vitnisburð ökumanns

Um aksturslag ökumannsins segir í skýrslunni að hann hafi komið akandi suðvestur eftir Strandgötu og tekið þrönga vinstri beygju inn á Hofsbót til suðausturs. Engin umferð akandi bifreiða hafi verið á akreininni á móti og hafi bifreiðinni verið ekið viðstöðulaust til austurs inn að Hofsbót. Samkvæmt útreikningum nefndarinnar hafi hraði bifreiðarinnar verið um 15 kílómetrar á klukkustund rétt fyrir slysið, sem sé í samræmi við vitnisburð bílstjórans.

Í skýrslunni er gerð ítarlega grein fyrir breytingum sem gerðar höfðu verið á slysstaðnum vegna byggingaframkvæmda. Meðal annars hafði hluti Hofsbótar verið færður og gönguleiðir höfðu verið afmarkaðar á götunni með óbrotinni línu. Tvær öryggismyndavélar voru við gatnamótin og því er til upptaka af slysinu.

Vegfarandinn hafii gengið til norðvesturs meðfram framkvæmdasvæðinu, við sunnanverða Hofsbót, þar til hann hafi komið að gatnamótunum. Svo virðist sem að leið hans af Hofsbót hafi legið til norðausturs Strandgötu en hann hafi farið út af merktri gönguleið við Hofsbót og þvert inn á gatnamótin til norðurs. Ekkert grindverk eða öryggisafmörkun hafi verið af gönguleiðinni inn á gatnamótin og engin gönguþverun hafi verið á Hofsbót við gatnamótin. Því hafi ekki verið nein stýrð gönguleið á þeirri leið sem vegfarandinn virðist hafa verið á.

Í skýrslunni segir að lögreglan hafi við rannsókn málsins sviðsett slysið. Lögreglumaður hafi gengið sömu leið og hinn látni og umræddri bifreið ekið sömu leið. Sú sviðsetning hafi leitt í ljós að lögreglumaðurinn sem var gangandi hafi fyrst sést þegar hann var alveg við bifreiðina. Sviðsetning styðji því vitnisburð ökumannsins um að hann hafi ekki séð vegfarandann fyrr en hann ók á hann. Var það póstur fyrir framan framhurð sem einkum byrgði sýn ökumannsins en hann sé hannaður þannig að blinda svæðið við vinstra framhorn sé stórt og minnki útsýn ökumanns talsvert, sérstaklega þegar beygt sé til vinstri.

Hikaði ekki en merkingum ábótavant

Í skýrslunni segir að það sjáist á upptökum úr öryggismyndavélunum við gatnamótin að ökumaðurinn hafi ekið bifreiðinni eftir Strandgötu og beygt óhikað til vinstri inn á Hofsbót. Slysið hafi orðið á eystri akrein Strandgötu þegar bifreiðinni hafi verið beygt inn að Hofsbót. Hann hafi bersýnilega ekki notað stefnuljós og í vitnisburði sínum sagst ekki muna hvort hann hafi notað það.

Enn fremur segir að merkingum á svæðinu vegna þeirra breytinga sem gerðar hafi verið á akturs- og gönguleiðum, vegna framkvæmda, hafi verið ábótavant.

Gönguþveranir hafi ekki verið merktar og hvorki gangbrautir fyrir vegfarendur sem leið áttu yfir Strandgötu í framhaldi af syðri gönguleið Hofsbótar né fyrir vegfarendur sem áttu leið þvert yfir Hofsbót við gatnamótin.

Biðskyldumerking á yfirborði syðstu akreinar Hofsbótar við gatnamót Strandgötu hafi gefið til kynna að akstursstefna væri á Hofsbót fyrir umferð ökutækja til norðvesturs en sú akrein Hofsbótar hafi verið ætluð umferð í gagnstæða átt. Einnig hafi verið máluð stefnuör gegn aksturstefnu á syðstu akrein Hofsbótar, sem hafði verið hulin að hluta.

Leið bifreiðarinnar hafi verið ætluð yfir þessar merkingar á yfirborði akreinarinnar. Fyrir gangandi vegfaranda hafi þessi biðskyldumerking á á akbrautinni getað gefið til kynna (ranglega, innsk. DV) að einstefna væri norðvestur Hofsbót.

Gönguleiðir meðfram framkvæmdasvæðinu hafi síðan eingöngu verið afmarkaðar með óbrotinni línu. Engin upphækkun, vegtálmar eða öryggisgrindur hafi verið til varnar gangandi vegfarendum.

Margar orsakir en gáleysið sú helsta

Í niðurstöðuhluta skýrslunnar eru nefndar alls sex orsakir að slysinu. Meginorsökin sé sú að ökumaður tók vinstri beygju af Strandgötu inn að Hofsbót án þess að gæta að umferð gangandi vegfarenda sem veita átti forgang.

Aðrar orsakir séu takmörkuð sýn ökumannsins vegna póstsins við framhurð bifreiðarinnar og upptökur úr öryggismyndavélum styðji að hann hafi ekki séð vegfarandann áður en slysið varð.

Þriðja orsökin sé sú að vegfarandinn hafi gengið af merktri gönguleið inn að miðju gatnamóta Strandgötu og Hofsbóta og verið staðsettur í akstursstefnu bifreiðarinnar.

Rangar merkingar á akbraut Hofsbótar og ófullnægjandi aðgreining gangandi og akandi vegfarenda hafi átt sinn þátt í slysinu. Færsla gatnamótanna vegna framkvæmdanna hafi einnig verið með þeim hætti að ekki var gert ráð fyrir að gangandi vegfarendur þveruðu Hofsbót sem hafi takmarkað leiðarval þeirra.

Loks hafi öryggisáætlun vegna framkvæmdanna ekki verið gerð og ökumaðurinn hafi ekki notað stefnuljós sem hafi gert vegfarandanum ómögulegt að átta sig á stefnubreytingu bifreiðarinnar og bregðast við en þó hafi aðeins liðið ein sekúnda frá því að ökumaðurinn byrjaði að beygja þar til slysið varð.

Skýrslan í heild sinni er aðgengileg hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt
Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti