Skólastjóri Dalskóla í Úlfarsárdal varaði í gær foreldra og forráðamenn barna í skólanum við dæmdum kynferðisbrotamanni sem hefur gert sér dælt við 13 ára drengi þegar þeir sækja skólasund í Dalslaug. Vísir greindi frá.
Maðurinn heitir Jón Sverrir Bragason. Hann var árið 2009 dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn dreng með ódæmigerða einhverfu. DV greindi frá málinu á sínum tíma. „Brotin áttu sér stað þegar drengurinn var þrettán til fimmtán ára, á árunum 2006 til 2008. Jón Sverrir var kunningi föður drengsins. Jón Sverrir hafði margsinnis munnmök við piltinn auk þess sem hann fékk drenginn til að hafa við sig endaþarmsmök. Jón Sverrir nýtti sér andlega annmarka drengsins og lokkaði hann til kynlífsathafnanna með því að gefa honum tölvuleiki og peninga.“
Hann hlaut einnig yfir tveggja ára fangelsi fyrir að hafa í fórum sínum gífurlega mikið magn af barnaníðsefni. Var hann gripinn með efnið í Leifsstöð árið 2014. Sjá hér.
Jón Sverrir, sem er 69 ára, hefur gert sér dælt við 13 ára drengi í Úlfarsárdal síðan í janúar. Hefur hann mánuðum saman spjallað við þá fyrir og eftir skólasund í Dalslaug og mætt á fótboltaæfingar þeirra hjá Fram. Virðist hann hafa á hreinu tímasetningar æfinga hjá drengjunum og skólasundtíma þeirra. DV ræddi við móður þess drengs sem Jón Sverrir hefur haft hvað mest samskipti við. Henni og syni hennar er eðlilega mjög brugðið yfir þessum tíðindum.
„Ég vissi ekkert um þetta þar til bréfið kom frá skólanum í gær. Sonur minn hafði ekkert nefnt þennan nýja vin sinn í sundi. En þessi maður hefur verið að tala við þá a.m.k. síðan í janúar. Hann hefur áunnið sér traust þeirra og hefur mest verið að tala við son minn og einn annan dreng. Skólinn komst að þessu fyrir um tveimur vikum og fór þá í rannsóknarvinnu, þau skoða upptökur úr sundlauginni og þar sést að hann mætir í sund þegar þeir eru að mæta, hann fer upp úr á sama tíma og þeir og er að tala við þá og eiga samskipti við þá, þetta sýna gögn úr myndeftirlitsvélum. Þau komast að því að þetta er dæmdur barnaníðingur. Hann fékk viðvörun í síðustu viku og var þá sagt að ef hann komi aftur þá muni mæta honum lögregla og skólayfirvöld. Hann lét sér ekki segjast og það var tekið á móti honum í gær. Í kjölfarið var farið með börnin inn í skólastofu og þetta útskýrt fyrir þeim. Maðurinn var nafngreindur og börnin hvött til að gúggla og kynna sér málið.“
Konan á tvo syni og ræddi málið við þá báða í gær. Hún segir að Jón Sverrir sé í miklum metum hjá drengjunum sem hann hefur gert sér dælt við. „Sonur minn er bráðvelgefinn og það er ekki auðvelt að plata hann en hann segir að þessi maður sé bara meistari, mikill snillingur og góður vinur sinn. Þetta finnst mér mjög óhugnanlegt. Þessi maður er búinn að leggja á sig margra mánaða vinnu til að ávinna sér traust hans og drengurinn gerir sér enga grein fyrir því að neitt athugavert sé í gangi. Ég spurði hann hvort vináttan hefði verið komin á það stig að ef hann hefði boðið honum til dæmis í ís eða eitthvað svoleiðis, að þá hefði hann farið með honum. Hann sagði hiklaust já. Hann hefði ekki grunað að þetta væri annað en bara eðlilegur, gamall maður í sundi.“
Konan segir að ekki séu vísbendingar um að Jón Sverrir hafi brotið gegn syni hennar eða öðrum. En jafnvel þó að hann sé látinn njóta alls vafa sé hegðun hans afar óeðlileg, þar sem hann, með þessa sögu á bakinu, sé kerfisbundið að koma sér í kynni við barnunga drengi í hverfinu. Hann hafi verið að mæta á fótboltaæfingar hjá þeim og hafi kynnt sér bæði stundaskrá þeirra í skólanum og æfingatöflu þeirra hjá íþróttafélaginu.
„Hann er að hafa frumkvæði að samskiptum við þá í marga mánuði, að tala um skemmtilega hluti eins og fótbolta við þá, alltaf kátur og glaður. Ef þú ert læknaður af svona hvötum þá ertu ekki að leggja á þig margra mánaða vinnu við að kynnast drengjunum og stúdera þeirra stundatöflu og æfingaskrá. Það sýður á mér og fleiri foreldrum í hverfinu. Hvað hefði gerst ef enginn hefði komist að þessu? Drengirnir voru spenntir yfir því að hitta hann, hlökkuðu til.“
Konan greinir einnig frá því að Jón Sverrir hafi verið staðinn að því að fara inn í kvennaklefann í Dalslaug á skólasundtíma og horfa þar á naktar 13 ára stúlkur. „Hann fór ekki út fyrr en starfsmaður kom að honum. Dóttir einnar vinkonu minnar greindi móður sinni frá þessu, hún sagði mér að dóttir hennar hefði verið nakin og hún hafi reynt að fela sig á bak við eina vinkonu sína.“