fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Fíkniefnasali dvaldi ólöglega á Íslandi í þrjú ár – Samtals 14 farsímar teknir af honum

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 26. mars 2024 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður af erlendum uppruna var fyrir helgi dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir 6 mismunandi brot á fíkniefnalögum og 2 brot á útlendingalögum þar á meðal fyrir að hafa dvalið hér á landi á árunum 2020-2023 án dvalarleyfis og farið huldu höfði.

Fíkniefnalagabrotin sem maðurinn var ákærður fyrir voru framin á árunum 2021-2023.  Vörðuðu þau ýmist vörslu maríhúana, kókaíns, MDMA, og amfetamíns ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni.

Fyrra útlendingalagabrotið sem maðurinn var ákærður fyrir fólst í að hafa ítrekað brotið gegn þeirri skyldu sinni að tilkynna sig á lögreglustöðinni við Hverfisgötu samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Það seinna varðaði það að hafa á árunum 2020-2023 dvalið í heimildarleysi hér á landi án dvalarleyfis og farið huldu höfði í kjölfar ákvörðunar Útlendingastofnunar árið 2021 þar sem manninum var tilkynnt um brottvísun og endurkomubann fyrir ólögmæta dvöl hér á landi.

Auk upptöku á fíkniefnunum sem maðurinn var með í vörslu sinni krafðist ákæruvaldið upptöku á 14 farsímum, grammavog og tæplega hálfri milljón króna í reiðufé sem maðurinn var einnig með í vörslu sinni.

Maðurinn játaði fíkniefnalagbrotin að hluta til en neitaði sök þegar kom að útlendingalagabrotunum.

Samkvæmt dómnum var misjafnt í þau sex skipti sem höfð voru afskipti af manninum vegna vörslu fíkniefna hvort hann játaði að hafa haft það í hyggju að selja þau en skilaboð sem fundust í farsímunum 14 gáfu til kynna að maðurinn væri að selja fíkniefnin.

Seldi fíkniefni vegna atvinnuleysis

Fyrir dómi játaði maðurinn að hluta til þá liði ákæranna sem sneru að ætlaðri sölu fíkniefna en neitaði öðrum liðum. Sagðist maðurinn hafa verið atvinnulaus og þess vegna aflað sér tekna með fíkniefnasölu og aðstæður hans hefðu verið mjög erfiðar þar sem hann hafi ekki getað yfirgefið landið vegna ferðatakmarkana í kjölfar Covid-heimsfaraldursins. Hann sagði hluta fjármunanna sem hann var með í vörslu sinni og lögreglan lagði hald á til komna vegna ágóða af fíkniefnasölu en að mestu leyti hefði hann aflað fjárins með svartri vinnu.

Þegar kom að brotum á útlendingalögum þá sagðist maðurinn hafa upphaflega komið til landsins sem ferðamaður en gætt sín á því að dvelja hér á landi aldrei lengur en 90 daga í senn en eftir að ferðatakmarkanir voru settar á vegna Covid hafi orðið röskun á því. Hann vildi meina að hann hefði upplýst Útlendingastofnun um að hann hefði yfirgefið landið vorið 2021 en komið aftur og myndi ekki nákvæmlega hvenær. Maðurinn sagðist ekki hafa skilið leiðbeiningar um hvernig hann ætti að tilkynna sig á lögreglustöðina við Hverfisgötu.

Sagðist maðurinn hafa farið af landi brott eftir að honum var í upphafi árs 2022 birt ákvörðun Útlendingastofnunar um að vísa honum úr landi en myndi ekki hvenær.

Hafi ekki sagst ekki skilja það sem fram fór

Þó nokkur fjöldi lögreglumanna bar vitni fyrir dómi. Einn þeirra sagði að í upphafi árs 2022 hefði lögreglan talið að maðurinn hefði farið af landi brott í kjölfar ákvörðunar Útlendingastofnunar um að vísa honum úr landi en annað hefði komið í ljós síðar þetta sama ár. Maðurinn hefði viðurkennt fyrir sér að hafa ekki yfirgefið landið í kjölfar ákvörðunarinnar og að hafa ekki sinnt tilkynningaskyldu sinni. Hann hefði ekki verið með vegabréf meðferðis og því ekki unnt að staðfesta hvort hann hefði yfirgefið landið eða hversu lengi hann hefði dvalið hér á landi. Maðurinn hefði sagst talið sig ekki þurfa að sinna tilkynningaskyldunni þar sem hann hefði keypt sér flugmiða. Hann hefði á fyrri stigum framvísað flugmiða hjá lögreglu en í raun aldrei farið af landi brott.

Lögreglumönnum sem báru vitni bar almennt saman um að í þau skipti sem afskipti voru höfð af manninum hefði hann gefið misvísandi skýringar og ekki gefið til kynna að hann hefði ekki skilið það sem fram fór en maðurinn hélt því meðal annars fram fyrir dómi að hann hefði oft ekki skilið það sem fram fór í samskiptum hans við lögreglu vegna tungumálaörðugleika.

Hafi verið ótrúverðugur

Héraðsdómur sakfelldi manninn fyrir alla ákæruliði sem vörðuðu brot á fíkniefnalögum. Samkvæmt niðurstöðu dómsins gáfu gögn málsins, meðal annars skýrslur og myndir, sekt mannsins til kynna. Framburður mannsins fyrir dómi þótti ekki vera í samræmi við framburð hans hjá lögreglu og því ótrúverðugur. Var maðurinn því dæmdur sekur fyrir að hafa í öll 6 skiptin sem fíkniefni fundist í fórum hans hafa ætlað sér að selja þau, þótt hann hefði eingöngu játað þessar fyrirætlanir þegar kom að fyrsta skiptinu.

Maðurinn var sömuleiðis sakfelldur fyrir að hafa ekki sinnt tilkynningaskyldu sinni hjá lögreglu en framburður hans um að hann hefði ekki skilið leiðbeiningar um hana þóttu ótrúverðugar í ljósi þess að hann hefði ekki gefið það til kynna fyrr en fyrir dómi að hann hefði ekki skilið þær.

Hann var sömuleiðis sakfelldur fyrir ákæruna um að hafa dvalið ólöglega á landinu og að hafa ekki yfirgefið landið þrátt fyrir brottvísun. Framburður hans um að hafa reglulega yfirgefið landið og komið aftur innan 90 daga, eftir því sem mögulegt var vegna ferðatakmarkana, var ekki studdur neinum gögnum. Framburður mannsins um að hann hafi yfirgefið landið í kjölfar ákvörðunar Útlendingastofnunar um að vísa honum úr landi var metinn ótrúverðugur ekki síst á grundvelli þess að fyrir lá að lögreglan hafði afskipti af honum á árunum 2022 og 2023.

Upptökukröfur ákæruvaldins á fíkniefnum, 14 farsímum og tæplega hálfri milljón króna voru samþykktar.

Maðurinn var dæmdur í 6 mánaða fangelsi þar af 5 skilorðsbundna en gæsluvarðhald sem hann sætti dregst frá þessum eina mánuði sem er óskilorðsbundinn.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Álftnesingur réðst á lögreglumann í Valsheimilinu

Álftnesingur réðst á lögreglumann í Valsheimilinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tvíburasynir Rannveigar og Birgis Þórs fæddust eftir 25 vikna meðgöngu – „Við þurfum að vera til staðar fyrir litlu hetjurnar“

Tvíburasynir Rannveigar og Birgis Þórs fæddust eftir 25 vikna meðgöngu – „Við þurfum að vera til staðar fyrir litlu hetjurnar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“

Sigmundur Davíð – „Gervigreindin að minnsta kosti var með það á hreinu og skilaði því svari að Ísland hefði slitið viðræðunum“