Upp úr miðnætti fór fram lögregluaðgerð í Reykjanesbæ þar sem sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð til aðstoðar Lögreglunni á Suðurnesjum. Samkvæmt heimildum DV var umræddri götu lokað í báða enda og lögreglumenn á vettvangi voru búnir skjöldum og hjálmum.
Samkvæmt heimildum DV var lögreglan kölluð til eftir að maður hafði uppi hótanir.
Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Suðurnesjum fylgdi tilkynningunni að umræddur aðili væri hugsanlega vopnaður. Tilkynningin hafi borist klukkan 23:22 í gærkvöldi og þegar slíkar tilkynningar berist sé farið eftir því verklagi að kalla eftir aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra. Vinna á vettvangi hafi gengið vel, viðkomandi hafi verið handtekinn og málið sé til rannsóknar.
Samkvæmt heimildum DV var sjúkrabíll kallaður til og biðu sjúkraflutningamenn átekta, í bílnum, á meðan aðgerðin stóð yfir. Sjúkrabíllinn yfirgaf vettvanginn á undan lögreglumönnum og ekki er vitað hvort einhver einstaklingur hafi verið fluttur með honum.
Sérsveitin yfirgaf vettvanginn um klukkan 01:30 í nótt en ekki kemur fram í upplýsingunum frá Lögreglunni á Suðurnesjum um hvort staðfest sé að hinn handtekni hafi verið vopnaður og um hvers konar vopn hafi þá verið að ræða.