Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag og þar er haft eftir Birgi að hann vonist eftir samstöðu þingmanna. Eins og greint hefur verið frá eru brotalamir í kerfinu og dæmi um að einstaklingar hafi náð svokölluðu harkaraprófi með því að svindla á prófinu.
Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag er bent á að gerð sé krafa um hreint sakavottorð til að fá réttindi til aksturs. Þannig þurfi að líða fimm ár frá minniháttar refsiverðu broti og tíu ár frá meiriháttar broti.
Kveðst Morgunblaðið hafa rætt við leigubílstjóra sem hafi velt fyrir sér hvaðan erlendir bílstjórar fái sakavottorð ef þeir hafa búið hér skemur en í fimm til tíu ár og hvort vottorðin séu sannreynd.
Morgunblaðið hefur fjallað mikið um málefni leigubílstjóra síðustu vikur og segir í umfjölluninni að margir hafi sett sig í samband og kvartað yfir samskiptum við erlenda leigubílstjóra. Þeir rati illa og gjaldtakan sé oftar en ekki út úr öllu korti. Þannig hafi verið nefnt dæmi um 150 þúsund króna gjald á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.