Tryggvi Karl Valdimarsson hefur tekið við sem framkvæmdastjóri Verifone á Íslandi og mun halda áfram að byggja ofan á sterka stöðu fyrirtækisins. Verifone þjónustar fjölda fyrirtækja með greiðslulausnir bæði í verslunum og í netverslunum. Kemur þetta fram í tilkynningu.
Tryggvi hefur 15 ára reynslu á fjármálamarkaði og hefur leitt teymi bæði á Íslandi og í Evrópu í fyrri störfum sínum. Reynsla hans og þekking mun nýtast vel í að leiða áframhaldandi vöxt Verifone á Íslandi og efla viðskiptasambönd félagsins við samstarfsaðila og viðskiptavini. Tryggvi kemur frá Arion banka þar sem hann sinnti vöruþróun fyrir fyrirtæki síðastliðin þrjú ár. Þar áður starfaði hann í 13 ár hjá Borgun hf. (nú Teya) við viðskiptatengsl og þróun vöru- og þjónustuframboðs.
„Það er heiður að taka við starfi framkvæmdastjóra Verifone á Íslandi. Í fyrri störfum mínum hef ég fengið að kynnast starfsemi félagsins og ég mun nýta þá reynslu til að leiða félagið áfram í komandi verkefnum. Verifone býður upp á framúrskarandi greiðslulausnir og áfram munum við byggja á því góða trausti sem viðskiptavinir hafa sýnt Verifone í gegnum árin,“ segir Tryggvi Karl.
Ísland er stöðugt vaxandi markaður og hefur Verifone gegnt lykilhlutverki í tæp 30 ár við að þjónusta fyrirtæki, bæði stór og smá. Verifone býður viðskiptavinum sínum upp á fjölbreytt vöruframboð, allt frá posabúnaði og netlausnum yfir í þróaðar greiðslulausnir sem mæta þörfum fyrir flóknari rekstur. Fyrirtæki í fjölbreyttum atvinnugreinum nýta sér þjónustu Verifone og má þar meðal annars nefna aðila í almennum verslunarrekstri, fyrirtæki í ferðaþjónustu, veitingastaði og olíufélög.
Verifone er alþjóðlegt fjártæknifyrirtæki og starfar í yfir 165 löndum þar sem fyrirtækið þjónustar ein þekktustu vörumerki heims. Lausnir Verifone eru byggðar á fjögurra áratuga reynslu af nýsköpun og ýtrustu öryggisstöðlum og sér árlega um meira en 14 mlja. færslna að verðmæti yfir 450 mlja. bandaríkjadala í verslunum og á netinu.