Samtökin Villikettir í Reykjanesbæ og nágrenni deila á samfélagsmiðlum sorgarsögu kattar sem fannst síðastliðið sumar en var að glíma við mikinn og falinn vanda. Kötturinn hét Garðar og hafði verið skotinn með byssu.
Í júní í fyrra fengu samtökin ábendingu um haltan kött og í júlíbyrjun náðist hann loksins í búr.
„Hann virtist þá vera alveg snælduvitlaus, hvæsti bara og urraði á okkur og vorum við ekki viss um tíma hvort um væri að ræða villing eða vergangskisa,“ segir í færslunni. „Var farið með hann til dýralæknis til að skoða á honum fótinn og var hann svæfður á meðan svo hægt væri að skoða hann almennilega. Ekkert kom út úr þeirri heimsókn og var talið að mögulega væri hann kominn með smá gigt sem hefði verið verri úti í kuldanum þar sem hann var jú nokkuð fullorðinn og á vergangi.“
Um mánuði síðar var aftur farið með köttinn, sem átti eftir að fá nafnið Garðar, til dýralæknis í geldingu og alls herjar yfirferð. Eftir það fór Garðar að sýna á sér aðra hlið og á endanum brotnaði skelin sem hann var búinn að setja upp. Úr skelinni kom að sögn Villikatta þessi svakalegi kúrubangsi sem bræddi hjörtu allra viðstaddra.
Um tíma virtist Garðar ekkert vera haltur eða að neitt amaði að honum. Síðar fór hann hins vegar að naga á sér fótinn og sýna af sér undarlega hegðun. Til að byrja með lá grunur um að hann væri með eitthvað ofnæmi og væri einfaldlega að klóra sér.
„En svo fann sjálfboðaliði fyrir einhverju hörðu undir húðinni á honum og var þá pantaður strax tími fyrir hann hjá doksa og hann skoðaður og fjarlægt „eitthvað stykki“ undan húðinni á honum,“ segir í færslunni.
Strax lék grunur á að þetta stykki gæti verið hluti úr byssukúlu. Ekki þurfti að leita lengi á netinu til að finna mynd af byssukúlu sem passaði nákvæmlega við stykkið sem tekið var úr Garðari, sem í var dælt bæði sýkla og verkjalyfjum eftir að þetta fannst.
Var Garðari komið fyrir á fósturheimili þar sem hann var dekraður mikið og haft stíft eftirlit með lyfjagjöfinni. Síðan fór hann á heimili þar sem hann átti að vera til framtíðar.
„En nú fyrir stuttu byrjaði hann að haltra, slappast upp og vildi alls ekki vera einn,“ segir í færslunni.
Farið var með hann á aðra dýralæknastofu og hann sendur í röntgenmyndatöku, en það hafði ekki verið gert áður. Kom þá í ljós að öxlin á honum var stórsködduð eftir höggið á kúlunni. Hafði Garðar verið sárkvalinn allan þennan tíma en harkað af sér, eins og kettir eigi til að gera.
Voru aðeins tveir möguleikar í stöðunni. Annað hvort að taka löppina af honum eða svæfa hann. Áður en það var gert var fengið annað álit sérfræðings, sem taldi Garðar vera orðin of slappan fyrir svo stóra aðgerð. Var því ekkert annað í stöðunni en að Garðar fengi að sofa svefninum langa.
„Elsku fallegi strákurinn okkar sem átti svo allt það besta skilið en einhver illa innrættur einstaklingur rústaði lífi hans með því að skjóta hann,“ segir í færslu Villikatta.
Að sögn samtakanna er þetta ekki í fyrsta skipti sem þau fá í hendur kött sem í finnast byssukúlur eða högl. Bent er á að það sé ólöglegt að skjóta ketti og hvetja samtökin fólk til að tilkynna slíkt til lögreglu.