Guðni hefur lifað tímana tvenna og lýsir hann þungum áhyggjum af stöðu heimsmálanna í grein sinni. Rifjar hann upp að þau sem muna kalda stríðið séu nú að upplifa þær ógnir á ný sem skelfdu þau hin sömu sem börn og unglingar.
„Hinn mikli friðarfundur leiðtoganna í Höfða í Reykjavík 1986, þeirra Ronalds Reagans og Mikhails Gorbachevs og framhald fundarins var eins og þýður vorblær. Járntjaldið féll og vopnin þögnuðu, loksins var veröldin komin á sporbraut friðar,“ segir hann.
Guðni segir að nú sé öldin önnur og allt að verða grátt og grimmt á ný þar sem styrjaldir og manndráp heltaka fréttir um allan heim.
„Hvað gerðist? Hvar er Nató? Hvar eru stórmennin sem settu niður deilur? Hvar er Winston Churchill, hvar er John F. Kennedy, hvar eru Reagan og Gorbachev? Hvar eru leiðtogarnir sem settu svip sinn og vörðuðu leiðina til friðar í Bandaríkjunum eða í Evrópu? Voru það afleiðingar heimsstyrjaldarinnar sem gerðu leiðtogana sterka eða voru það magnaðir menn sem leiddu stórveldin. Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Sameinuðu þjóðirnar?“
Guðni nefnir að enginn einn beri ábyrgð á deilum og mannvonskunni sem nú vex. Nefnir hann að glæstasta ríkið í friðarbaráttunni hafi eitt sinn verið Bandaríkin með marga merka forseta.
„Nú er forseti Bandaríkjanna höktandi gamall maður sem á nóg með að halda sér uppistandandi. Margir fyrirrennarar hans egndu Rússana til reiði og sáttmálinn sem Kissinger utanríkisráðherra minntist oft á frá Höfðafundinum fokinn út í veður og vind. Styrjaldir geisa um víða veröld, ekki bara í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafsins.“
Guðni hefur áhyggjur af stöðu mála í Evrópu.
„Evrópa virðist leiðtogalaus. Góðmenni eða bleyður sem skilja ekki að allt á að snúast um frið og friðarumleitanir en ekki að færa þjóðum drápsvopn. Jafn vel sjáum við breytinguna hér á litla Íslandi þar sem ráðherrar máta sig með stríðsþjóðunum og dingla dindlinum eins og ærin, sem þýðir við erum með,“ segir hann og spyr hvers vegna Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sker sig ekki úr og ræðir um frið en ekki vopn.
„Sameinuðu þjóðirnar urðu til sem alþjóðasamtök í lok stríðs. Þar eru 193 aðildarríki í dag en röddin er horfin. Evrópusambandið, sem er risabákn, er vandræðalegt og hefur dregið máttinn úr sterku þjóðunum. Nató, sem kallast orðið friðarbandalag, hefur gert Jens Stoltenberg að stríðsherra sem mest þjónar stríðsaðilum en ekki friði,“ segir Guðni sem endar skrif sín á þessum orðum:
„Hvar ert þú veröld sem varst fyrir fjörutíu árum að berjast fyrir friði og járntjaldið féll og fólk dansaði og söng af gleði? Upp er runnin vargöld og heimsstyrjöld gæti brostið á. Vopnin og grimmdin eru engin lömb að leika við.“