Framleiðsla hins belgíska bjórs Duvel lá niðri um stund vegna tölvuárásar óprúttinna aðila. Ráðist var á fimm brugghús.
Árásin átti sér stað aðfaranótt miðvikudags. Að sögn bjórframleiðandans var um svokallaða „gíslatökuárás“ að ræða. Það er að netþrjótarnir stela ákveðnum gögnum, halda þeim í gíslingu og krefjast lausnargjalds.
Þurfti að loka fimm brugghúsum um stund vegna árásarinnar. Náðst hefur að endurræsa eitt þeirra en fjögur eru enn þá lokuð. Duvel rekur fjögur brugghús í Belgíu og eitt í Kansas City í Bandaríkjunum. Eitt hinna belgíska komst aftur í gang.
Auk Duvel, sem er vel þekktur bjór um allan heim, framleiðir fyrirtækið bjórana Chouffe, Vedett og Liefmans. Í fyrra framleiddi fyrirtækið 230 milljón lítra af bjór.
Duvel vildi ekki mikið segja um málið þar sem lögreglurannsókn væri í gangi. Hins vegar var greint frá því að tæknideild fyrirtækisins hefði strax komist á snoðir um hvað væri að gerast og lét forsvarsmenn vita samstundis.