Um fjögurleytið í gær átti sér stað óhugnanleg hnífaárás í verslun OK Market á horni Hlíðarfótar og Haukahlíðar í Valshverfinu svokallaða. Þar réðst maður fyrirvaralaust á tvo starfsmenn verslunarinnar og lagði til þeirra með hníf. Atburðarásin í heild sinni, frá því maðurinn kom inn í verslunina og þar til að hann flúði af vettvangi, tók aðeins fjörutíu sekúndur. Hann var handtekinn skömmu síðar.
Árásarmaðurinn, sem er af erlendu bergi brotinn og góðkunningi lögreglunnar, var í dag úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Mennirnir sem urðu fyrir árásinni leituðu aðhlynningar á slysadeild en meiðsli þeirra reyndust ekki vera alvarleg.
Hér að neðan geta lesendur séð upptökuna úr öryggismyndavél verslunarinnar en þar sést glöggt hversu fyrirvaralaus árásin var.