Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur kveðið upp úrskurð sinn í máli sem kona nokkur beindi til nefndarinnar. Krafði konan fyrirtæki um endurgreiðslu á mótsgjaldi vegna þátttöku sonar hennar í fótboltamóti sumarið 2023. Sagði konan meðal annars fá og léleg lið hafa mætt á mótið og að allar aðstæður á mótsstað hefðu ekki verið eins og lýst hefði verið í kynningu fyrirtækisins. Tók nefndin undir með konunni og beindi því til fyrirtækisins að endurgreiða konunni.
Fyrirtækið er ekki nefnt á nafn í úrskurðinum. Fram kemur að konan hafi fest kaup á ferðatengdri þjónustu af fyrirtækinu sem fólst í keppnisferð til ónefnds lands á fótboltamót í júlí 2023. Konan greiddi samtals 174.500 krónur fyrir ferðina og innifalið í verðinu var flug, gisting, fæði, mótsgjald og rútuferðir.
Konan sagði að samskipti við skipuleggjendur mótsins hafi verið í höndum fyrirtækisins. Að sögn konunnar stóðst fótboltamótið ekki væntingar. Mótið hafi ekki verið í samræmi við hvernig það hafi verið kynnt. Fá lið hafi mætt til leiks og geta þeirra ekki verið mikil. Aðstaða á keppnissvæði hafi verið léleg og dómgæsla verið sömuleiðis léleg. Fjöldi valla hafi ekki verið í samræmi við upplýsingabækling.
Konan benti einnig á að samgöngur á milli hótels og keppnissvæðis hafi ekki verið góðar og að ekki hafi verið hægt að nýta sér „skutlþjónustu“ sem boðið hafi verið upp á vegna ósamræmis í tímasetningum á
ferðum og leikjadagskrá.
Konan gerði þar af leiðandi kröfu um að fyrirtækinu yrði gert að endurgreiða henni 70.000 krónur sem var áætlað mótsgjald eða aðra upphæð að álitum, enda hafi fyrirtækið selt fjölskyldunni ferðina á umrætt mót án þess að kynna sér það sérstaklega.
Fyrirtækið sagðist hins vegar hafa fengið þær upplýsingar frá mótshaldara að mótið og þjónusta hafi verið í samræmi við væntingar og kostnað. Þá benti fyrirtækið á að erfitt sé að ábyrgjast fjölda þátttakenda eða samsetningu og getu liða. Loks vísaði fyrirtækið til þess að aukinn fjöldi ferða í „skutlþjónustu“ hefði leitt af sér hærri þátttökukostnað.
Eftir skoðun á gögnum málsins úrskurðaði kærunefnd vöru- og þjónustukaupa konunni í vil. Auk kvörtunarinnar og athugasemda málsaðila voru þessi gögn afrit af skriflegum samskiptum málsaðila, bókunar- og greiðslustaðfesting, upplýsingabæklingur um fótbóltamótið og farseðill.
Er það niðurstaða nefndarinnar að mótið hafi ekki verið að fullu í samræmi við þær væntingar sem konan mátti gera til þess. Vanefndir hafi verið á framkvæmd pakkaferðarinnar og ljóst að konan beri ekki ábyrgð á þeim. Hún eigi því rétt á afslætti af greiðslu fyrir ferðina í samræmi við umfang vanefndanna, samkvæmt lögum.
Áleit kærunefndin að hæfilegur afsláttur sé 20 prósent af heildarverði pakkaferðarinnar eða sem nemur 34.900 krónum og ber fyrirtækinu að greiða konunni þessa upphæð.
Eins og áður kom fram fór konan fram á að fá 70.000 krónur endurgreiddar, eða aðra upphæð að álitum. Hún fékk því tæplega helminginn af þeirri upphæð sem hún fór fram á.
Úrskurðinn í heild sinni er hægt að nálgast hér.